Tónlist

Eric Clapton segist vera að missa heyrnina

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Eric Clapton er talinn vera einn besti gítarleikari allra tíma.
Eric Clapton er talinn vera einn besti gítarleikari allra tíma. Vísir/Getty
Tónlistarmaðurinn Eric Clapton hefur nú opinberað að hann sé að missa heyrnina. Clapton greindi frá þessu í þættinum Steve Wright in the Afternoon á BBC Radio 2 í vikunni.

Þar sagði hann að auk þess að missa heyrnina væri hann með tinnitus, sjúkdóm sem veldur krónísku eyrnasuði.

„Ég meina, ég er að missa heyrnina, ég er með eyrnasuð, hendurnar mínar rétt svo virka,“ sagði Clapton.

„Ég vona að fólk muni halda áfram að koma og sjá mig vegna þess að ég er furðuverk, eða jafnvel vegna einhvers annars. En ég veit að það er hluti af ástæðunni. Mér finnst magnað að ég sé enn hér.“

Talinn einn sá allra besti

Clapton hefur þó ekki í hyggju að leggja gítarinn á hilluna í bráð.

„Ég mun halda áfram að vinna, ég er að spila hér og þar,“ sagði hann.

„Það eina sem ég hef áhyggjur af núna er að vera á áttræðisaldri og vera vandvirkur.“

Eric Clapton er fyrir löngu orðin goðsögn í tónlistarbransanum. Hann fagnar 73 ára afmæli sínu þann 30. mars næstkomandi. Hann hóf feril sinn með hljómsveitinniThe Yardbirds og seinna með Cream. Hann er talinn vera einn besti gítarleikari allra tíma og er eini tónlistarmaðurinn sem hefur í þrígang verið vígður inn í heiðurshöll tónlistarmanna (Rock and Roll Hall of Fame).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×