Enski boltinn

Upphitun: Gylfi mætir á Wembley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Enska úrvalsdeildin fer aftur í gang í dag eftir hlé vegna bikarkeppninnar um síðustu helgi og það er 23. umferðin sem fer í gang með sjö leikjum.

Við fáum engan hádegisleik þennan laugardaginn og byrjar því veislan klukkan þrjú. Sjónvarpsleikur dagsins er viðureign Englandsmeistara síðustu tveggja ára, Chelsea og Leicester.

Chelsea er í harðri baráttu við Manchester United um annað sæti deildarinnar, en meistararnir eru með einu stigi minna en United. Aðeins tvö stig eru niður í Liverpool í fjórða sætinu svo allt getur gerst í toppbaráttunni, fyrir utan sjálft efsta sætið.

Leicester situr hins vegar nokkuð þægilega um miðja deild í áttunda sæti, og verða þar sama hvernig leikir helgarinnar fara. Þegar þessi lið mættust á King Power vellinum í september fór Chelsea með 1-2 sigur.

Jóhann Berg Guðmundsson fer með liðsfélögum sínum í Burnley niður til London og sækir heim Roy Hodgson og hans lærisveina í Crystal Palace. Hodgson hefur gefið Palace endurnýjun lífdaga og situr liðið í 14. sæti með 22 stig. Burnley hefur aðeins dottið niður frá toppliðunum, en er samt virðingavert í sjöunda sæti með 34 stig.

Nýliðar Huddersfield fá Hamrana hans David Moyes í heimsókn. Aðeins tvö stig aðskilja liðin, en Huddersfield er í 11. sæti með 24 stig og West Ham í því 15. með 22 stig. Huddersfield hefur gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum á John Smith's vellinum og West Ham gerði jafntefli í síðustu tveimur útileikjum, svo ef það hefur einhver áhrif þá mun jafntefli líklegast verða niðurstaðan.

Newcastle fær botnlið Swansea í heimsókn á St. James' Park. Swansea getur komist af botninum með hagstæðum úrslitum í dag, en liðið er jafnt að stigum og West Bromwich Albion.

Albion fær nýliða Brighton í heimsókn á The Hawthorns á sama tíma, en Brighton er í 12. sæti með 23 stig. Brighton fór með 3-1 sigur á West Brom þegar liðin mættust á Amex vellinum í september.

Southampton þarf að sækja stig gegn Watford á útivelli til þess að forða sér frá vandræðum, en liðið situr í 17. sæti með 20 stig, líkt og Stoke í 18. sætinu.

Deginum líkur svo með viðureign Tottenham og Everton á Wembley. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hafa harma að hefna en Spurs unnu 0-3 á Goodison Park fyrr á tímabilinu. Everton er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum og þarf að passa sig að falla ekki aftur í neðri hluta tímabilsins, en frá níunda sætinu eru aðeins sjö stig niður í það 18.

Leikir dagisns:
15:00 Chelsea - Leicester, beint á Stöð 2 Sport
15:00 Crystal Palace - Burnley
15:00 Huddersfield - West Ham
15:00 Newcastle - Swansea
15:00 Watford - Southampton
15:00 West Bromwich Albion - Brighton
17:30 Tottenham - Everton, beint á Stöð 2 Sport
 



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.