Innlent

Tækjabúnaður Hellisheiðarvirkjunar virðist hafa sloppið við skemmdir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eins og sjá má urðu nokkrar skemmdir á þaki stöðvarhússins.
Eins og sjá má urðu nokkrar skemmdir á þaki stöðvarhússins. Vísir/Slökkviliðið höfuðborgarsvæðisins.
Orkuvinnsla í Hellisheiðarvirkjun er að komast í eðlilegt horf og viðgerðir á stöðvarhúsinu eru hafnar eftir eldsvoða í gær. Útlit er fyrir að tækjabúnaður hafi sloppið við skemmdir.

Allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og slökkviliðsins í Árnessýslu var kallað út í hádeginu í gær eftir að kviknaði í loftræstikerfi stöðvarhússins.

Í tilkynningu frá Orku náttúrunnar segir að viðgerðir á húsinu hafi verið undirbúnar í gærkvöldi og hafist í morgun.

„Tækjabúnaður virðist hafa sloppið við skemmdir og virðast þær bundnar við þak og rýmið undir því þar sem eldurinn kom upp,“ að þvíer segir í tilkynningunni.

Jarðhitasýningin sem staðsett er í húsinu verður þó lokuð fram á næstu viku en tveir ferðamenn voru á sýningunni í húsinu þegar eldurinn kviknaði.

Háþrýstivél sem sló út í eldsvoðanum var gangsett aftur í gærkvöldi. Þá er útlit fyrir að lágþrýstivél og varmastöð, sem slökkt var á í öryggisskyni meðan á slökkvistarfi stóð, verði gangsettar í dag.

„Atburðurinn hefur því ekki áhrif á orkuafhendingu til almennings, hvorki á rafmagni né heitu vatni,“ segir í tilkynningunni.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar upptök eldsins. Brunavarnir Árnessýslu stóðu vakt í nótt án þess að til tíðinda drægi.


Tengdar fréttir

Slökkvistarfi lokið á Hellisheiði

Slökkvistarfi er nú lokið á Hellisheiði en eldur kom upp í loftræstibúnaði Hellisheiðarvirkjunar laust fyrir hádegi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×