Enski boltinn

Allardyce: Þurfum að stoppa besta framherja í heimi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Allardyce vann með Harry Kane á þeim stutta tíma sem hann var landsliðsþjálfari Englands
Allardyce vann með Harry Kane á þeim stutta tíma sem hann var landsliðsþjálfari Englands vísir/getty
Everton verður að hafa heimil á „besta framherja í heimi“ ætli liðið að fara með sigur á Wembley í dag segir knattspyrnustjórinn Sam Allardyce.

Everton mætir með nýja framherjann sinn, Cenk Tosun, í heimsókn til Tottenham í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Í liði Tottenham er hins vegar markahæsti maður síðustu tveggja tímabila sem er búinn að skora 18 mörk í úrvalsdeildinni til þessa, Harry Kane.

„Ég held Harry Kane sé besti markaskorari heims um þessar mundir. En hann hefur líka meira en það, hann getur haldið boltanum, gefur stoðsendingar og er líklegast besti framherji heimsins,“ sagði Allardyce.

„Hann er með sjálfstraustið í lagi, hann skorar mikið af mörkum að meðaltali í hverjum leik og hann fær mikla þjónustu frá liðsfélögum sínum.“

Gylfi Þór Sigurðsson fór ekki vel af stað með Everton á tímabilinu en er hægt og rólega að sanna virði sitt betur og betur og hann skoraði í bikarnum gegn Liverpool um síðustu helgi.

„Þið sáuð gæðin í marki Gylfa á móti Liverpool, við þurfum meira af slíkum gæðum á síðasta þriðjungnum,“ sagði Allardyce á blaðamannafundi sínum fyrir leikinn gegn Tottenham.

Everton missti sinn helsta markaskorara til Manchester United í sumar og náði ekki að festa kaup á nýjum framherja, en vonast til að Tosun sé maðurinn sem geti loks fyllt skarð Romelu Lukaku.

„Við verðum fyrir vonbrigðum ef hann gerir það ekki, en við verðum að sýna þolinmæði. Hann lítur út fyrir að hafa alla þá hæfileika sem þarf til þess að ganga vel, en það er aldrei hægt að tryggja það þegar leikmenn koma erlendis frá,“ sagði Allardyce, en Tosun er tyrkneskur og kemur frá Besiktas í heimalandinu.

„Leikmönnum með stærri ferilskrá en Cenk hefur mistekist hrikalega í ensku úrvalsdeildinni, en við vonumst eftir því að honum gangi vel.“

Leikur Tottenham og Everton hefst klukkan 17:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×