Erlent

Líkfundur í Noregi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Síðast sást til Janne Jemtland að morgni 29. desember síðastliðinn. Aðstandendur hennar hafa verið látnir vita af líkfundinum í dag.
Síðast sást til Janne Jemtland að morgni 29. desember síðastliðinn. Aðstandendur hennar hafa verið látnir vita af líkfundinum í dag. Norska lögreglan/Getty
Lík af konu fannst í dag í ánni Glomma í Noregi. Leit að Janne Jemtland, konunni sem saknað hefur verið síðan fyrir áramót, hefur farið fram á svæðinu í dag. Aðstandendur Jemtland hafa verið látnir vita af líkfundinum en ekki hefur þó enn fengist staðfest að líkið sé af Jemtland.

Mál Jemtland hefur vakið mikla athygli í Noregi en hennar hefur verið saknað síðan 29. desember síðastliðinn. Blóð úr henni fannst á vegi í Brumunddal, um hundrað kílómetrum norður af höfuðborginni Ósló, í byrjun mánaðar og þá var eiginmaður Jemtland úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær. Hann er grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana.

„Lögregla staðfestir að manneskja hefur fundist við leit í Glomma. Lögreglu er ekki kunnugt um að annarra sé saknað á svæðinu. Aðstandendur Janne Jemtland hafa verið látnir vita af líkfundinum,“ segir í tilkynningu frá lögregluyfirvöldum í dag.

Sjá einnig: Eiginmaðurinn grunaður um að hafa myrt Janne

Leit að Jemtland, sem saknað hefur verið síðan fyrir áramót, hefur að mestu farið fram á svæði í kringum Glomma-ána, við Eidsbrú í Valer, undanfarna daga. Í frétt NRK segir að lögregla hafi beint sjónum sínum að svæðinu vegna upplýsinga sem komu fram við yfirheyrslu á eiginmanni Jemtland. Svæðið er um 65 kílómetra suðaustur af Brumunddal, þar sem blóð úr Jemtland fannst.

Þá kemur einnig fram í fréttinni að eiginmaður Jemtland þvertaki fyrir að hafa myrt konu sína en viðurkennir þó að hafa komið á einhvern hátt að andláti hennar.

Lögregla naut aðstoðar kafara við leitina í dag en fyrsti kafarinn fór ofan í ána stuttu eftir klukkan 14 að norskum tíma, að því er fram kemur í frétt VG.

Síðast sást til Jemtland á heimili hennar í Veldre um klukkan 2 að nóttu, 29. desember. Jemtland og eiginmaður hennar höfðu þá verið í jólaveislu og tekið leigubíl heim. Það var eiginmaður hennar sem tilkynnti um hvarf hennar þann 30. desember.

Hér að neðan má sjá umfjöllun NRK um líkfundinn en fréttastofan var með beina útsendingu frá leitarsvæðinu í dag.


Tengdar fréttir

Fundu blóð úr norskri konu sem saknað er

Lögregla í Noregi hefur staðfest að blóð sem fannst á jörðinni í norskum skógi í gær sé úr Janne Jemtland, 36 ára norskri konu sem hefur verið saknað síðan fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×