Körfubolti

Isreal: Auðvitað verður partý í kvöld

Anton Ingi Leifsson skrifar
Israel Martin, þjálfari Tindastóls.
Israel Martin, þjálfari Tindastóls. vísir/hanna
Israel Martin, þjálfari Tindastóls, var hrikalega ánægður með sína drengi í bikarúrslitaleiknum gegn KR í dag. Eðlilega þar sem Tindastóll vann þann stóra.

„Við fengum tilfinningu að við ættum möguleika í þessu móti. Ekki bara í dag heldur í öllu mótinu,” sagði Israel í samtali við Vísi í leikslok.

„Allir voru klárir. Við þurftum að berjast og spila eftir okkar reglum í varnarleiknum. Við breyttum aðeins ryðma leiksins og leikmennirnir settu allt sitt í þetta.”

Byrjun Tindastóls var í raun lyginni líkast. Þeir grýttu hverjum þristinum niður á meðan KR gekk illa að finna sér leið að körfunni. Hann segir byrjunina hafa verið góða og mögulega betri en hann þorði að vona.

„Þetta var ekki betra en fýlingin sem ég hafði fyrir leiknum. Við töluðum um að það að við þyrftum að setja allan kraft okkar í leikinn og allir voru klárir.”

„Það skipti ekki máli hver var inni á vellinum. Leikmennirnir gáfu allt sitt og það skildi á milli liðanna.”

Israel gerir sér grein fyrir því að þetta þýðir rosalega mikið fyrir bæjarfélag eins og Sauðárkrókur er.

„Sérðu þessa gaura? Þessir stuðningsmenn frá eins litlum bæ eins og Sauðárkrókur er. Þeir áttu þetta svo skilið. Þetta er ekki hægt án þeirra.”

Martin vill ekki hugsa of mikið um Íslandsmeistaratitilinn strax að minnsta kosti. Hann ætlar að leyfa sér að fagna þessum og fara svo að hugsa um þann stóra.

„Núna ætlum við að njóta eins mikið og hægt er og síðan sjáum við hvað gerist. Mig langar ekki að hugsa of langt fram í tímann. Það eina sem ég vill segja er að þetta er minn annar stóri bikar, hinn í Danmörku, og ég mun njóta.”

Svo það verður partý á Sauðárkróki í kvöld?

„Auðvitað!” sagði Israel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×