Erlent

Ýtti á vitlausan takka og olli skelfingu á Hawaii

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skilaboðin voru send út í símtæki staðsett á Hawaii.
Skilaboðin voru send út í símtæki staðsett á Hawaii. Vísir/afp
Eldflaugaviðvörunina sem send var út til íbúa Hawaii í gær og olli skelfingu um tíma má rekja til þess að starfsmaður ýtti á vitlausan takka.

„ELDFLAUGAÁRÁS Á HAWAII YFIRVOFANDI. LEITIÐ SKJÓLS TAFARLAUST. ÞETTA ER EKKI ÆFING,“ voru skilaboðin sem send voru í fjölmörg símtæki og eftir öðrum leiðum til íbúa Hawaii og annarra sem þar voru staddir í gær.

CNN greinir frá því að skelfing hafi gripið um sig víða á eyjaklasanum í Kyrrahafi. Hótelgestir hafi verið drifnir niður í kjallara og íbúar hafi falið sig undir borðum á kaffihúsum.

Fljótlega sendu yfirvöld þó út þau skilaboð að enginn fótur væri fyrir viðvöruninni og að eldflaugaárás væri ekki yfirvofandi.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að starfsmaður Almannavarna Hawaii hafi einfaldlega ýtt á vitlausan takka og þannig sent út viðvörunina.

„Mistök voru gerð við vaktaskipti og starfsmaður ýtti á vitlausan takka,“ sagði David Ige, ríkisstjóri Hawaii í samtali við CNN.

Mun hann funda með embættismönnum ríkisins sem og ríkisstjórnar Bandaríkjanna til þess að koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×