Fastir pennar

Gerendur

Magnús Guðmundsson skrifar
Frásagnir kvenna innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi eru skelfileg lesning. Orð sem vitna um óþolandi yfirgang og ófyrirgefanlegt ofbeldi af hálfu karlmanna innan íþróttahreyfingarinnar í garð kvenna. Þetta er enn ein staðfestingin á því hversu djúpt þessar rætur liggja í menningu okkar og samfélagsgerð og hversu aðkallandi er að taka á þessum málum í samfélaginu, án undantekninga.

Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðunum við sögum og yfirlýsingu íþróttakvennanna og þar er vissulega margt jákvætt að finna. UMFÍ sendi frá fljótlega frá sér yfirlýsingu þar sem stuðningi er heitið við að útrýma þessari eyðileggjandi hegðun, ÍSÍ ályktar um að ofbeldi verði ekki liðið og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra stofnar starfshóp um gerð aðgerðaáætlunar um verklag þegar slík mál koma upp innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Áherslan er almennt, réttilega sem fyrstu skref, á aðstæður, öryggi og framtíð þolendanna en það er hætt við að slíkt muni duga skammt til þess að útrýma þessari óáran.

Íþróttahreyfingin, rétt eins og allir aðrir, þarf að skoða menninguna og það samfélag þar sem þessi fjári hefur grasserað lengi, konum til ómælds sársauka og skaða. Slík sjálfskoðun gæti reynst afar erfið en er engu að síður óhjákvæmileg ef það á að útrýma þessari hegðun með öllu. Kynbundin mismunun, kynferðisleg áreitni og kynferðislegt ofbeldi er alltaf og án undantekninga á ábyrgð gerenda og til þeirra verðum við að ná ef það á að takast að breyta ástandinu til betri vegar.

Við getum tekið dæmi af karlmanni sem brýtur af sér í starfi fyrir íþróttafélag og er vikið úr starfi. Segjum að brot viðkomandi sé tilkynnt til viðkomandi sérsambands og að jafnvel þar sé tekið þannig á málinu að viðkomandi sé útilokaður frá frekara starfi innan hreyfingarinnar en slíkt hefur þó því miður ekki alltaf verið raunin. En hvað svo? Viðkomandi er kannski í afneitun um alvarleika brotsins og afleiðingar þess og snýr sér bara að annarri íþrótt, skólastarfi eða guð má vita hverju og heldur áfram sinni eyðileggjandi hegðun. Hið sama gildir auðvitað um leikara, stjórnmálamenn eða hvern þann geranda sem horfist ekki í augu við gjörðir sínar og einfaldlega skiptir um starfsvettvang.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þurfum við því líka að ná til gerendanna því að öðrum kosti er viðbúið að hegðun þeirra endurtaki sig og jafnvel smiti út frá sér, til t.d. yngri og áhrifagjarnra karlmanna. Það þarf líka að fræða karlmenn á öllum aldri, innan skóla, vinnustaða, íþróttafélaga og þannig mætti áfram telja um afleiðingar þessarar hegðunar og hvernig beri að bregðast við henni í hvaða mynd sem hún birtist. Að allir karlmenn þurfi að líta svo á að þeir séu sekir uns annað er sannað er auðvitað ekkert annað en rakalaus þvættingur. Það breytir því ekki að gerendur eru í miklum meirihluta karlmenn og án breyttrar menningar og hegðunar af hálfu karlmanna er hætt við að illa fari áfram um ókomna tíð.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. janúar.






×