Skoðun

Leysum leikskólavandann

Eyþór Arnalds skrifar
Börn hafa ítrekað verið send heim af leikskólum Reykjavíkur vegna manneklu að undanförnu. Aðlögun barna hefur verið skert og deildir hafa lokað. Aðeins helmingur leikskóla í Reykjavík eru fullmannaðir. Enn vantar 46 stöðugildi og hundruð leikskólabarna hafa þurft að vera heima vegna þessa ástands. Þá er skortur á dagforeldrum sömuleiðis mikill í Reykjavík og margir foreldrar flytja yfir í önnur sveitarfélög vegna þessa. Vandinn er því bæði raunverulegur og mikill. Þetta þarf að leysa.

Reykvískir foreldrar gera þá eðlilegu kröfu til Reykjavíkurborgar að þeim standi leikskólapláss til boða fyrir börn sín. Þeir eiga ekki að búa við það óöryggi að þurfa að fara úr vinnu fyrirvaralaust vegna undirmönnunar í leikskólunum. Reykjavíkurborg hefur hins vegar aldrei haft eins miklar tekjur og nú. Mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar stendur yfir og hefur Reykjavík því notið stóraukinna tekna bæði af útsvari, ferðamönnum og hækkandi fasteignasköttum. Stjórnkerfi Reykjavíkur hefur stækkað mikið samhliða þessu og er orðið bæði dýrt og óskilvirkt. Það þarf að hagræða í yfirbyggingu stjórnkerfis borgarinnar og fjármagna þannig lausn leikskólavandans.

Fordæmi eru fyrir því að skera niður í stjórnkerfinu og skila þeim ávinningi til íbúanna. Þegar ég var oddviti í Árborg var stjórnunarkostnaður skorinn verulega niður og þjónusta við íbúana aukin meðal annars með opnun leikskólarýma sem á fyrra kjörtímabili hafði verið lokað í sparnaðarskyni. Það er því hægt að leysa leikskólavandann án þess að skuldsetja borgina meira en orðið er.

Ég ætla að taka til á kostnaðarhliðinni þar sem bruðl og óþarfa yfirbygging er fyrir hendi – og skila ávinningnum til íbúanna með betri þjónustu.

Höfundur er frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×