Handbolti

Ágúst Elí: Hrikalega gaman að vera með alla á móti sér

Smári Jökull Jónsson skrifar
„Það var gaman að koma inn á völlinn fyrir framan troðfulla höll. Við vorum að reyna að sækja mörk og stóðum lengi í vörninni en þetta gekk ekki hjá okkur í dag,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson sem fékk tækifæri í íslenska markinu í síðari hálfleik í tapleiknum gegn Króötum.

Króatar náðu yfirhöndinni í seinni hálfleik eftir jafnan fyrri hálfleik og unnu að lokum 7 marka sigur. Markvarslan í síðari hálfleik var lítil hjá íslenska liðinu á meðan kollegi þeirra hinu megin varði afar vel.

„Mér fannst við alltaf eiga séns á að komast inn. Svo fór markmaðurinn þeirra að verja vel og það braut svolítið sjálfstraustið þegar hann er að verja úr dauðafærum. Við vorum góðir varnarlega nær allan leikinn en það vantaði markvörslu meirihlutann af tímanum. Því miður fór þetta svona.“

Leikurinn í kvöld var sá fyrsti hjá Ágústi Elí á stórmóti fyrir Íslands hönd. Hann náði að verja tvö skot og sagði það hefði verið skemmtilegt að spila en stemmningin á leiknum í kvöld var rosaleg.

„Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hefði ekki verið með smá hnút í maganum fyrir leikinn en það var meiri svona spennuhnútur. Mér leið vel og það var hrikalega gaman að vera með alla á móti sér. Mér fannst þetta gaman þangað til að leikurinn kláraðist og við töpuðum,“ sagði Ágúst Elí að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×