Erlent

Tugir látnir í sprengjuárás í Bagdad

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð á Tayaran-torgi í miðborginni.
Árásin var gerð á Tayaran-torgi í miðborginni. Vísir/AFP
35 manns hið minnsta létu lífið í árás þar sem tveir sprengdu sjálfa sig í loft upp í íröksku höfuðborginni Bagdad í morgun. BBC  greinir frá því að níutíu manns hafi einnig særst í árásinni sem varð á Tayaran-torgi í miðborginni.

Sprengjuárásir hafa verið tíðar í Bagdad frá því að hryðjuverkasamtökin ISIS náðu stórum landsvæðum í Írak á sitt vald árið 2014 og síðar. Mikið hefur dregið úr árásum frá því að sigur var unninn á samtökunum í desember síðastliðinn.

Innanríkisráðuneyti Íraks segir að árásin í morgun hafi verið gerð af tveimur mönnum í sprengjuvestum. Algengt er að verkamenn safnist saman á torginu í leit að vinnu.

Mannskæð árás var einnig gerð í borginni á laugardag þar sem fimm manns létu lífið við eftirlitsstöð í úthverfi norður af borginni.

Þingkosningar fara fram í landinu þann 12. maí næstkomandi og er óttast að von sé á frekari árásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×