Erlent

Trump rýfur þögnina um eldflaugaviðvörunina á Havaí

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekki benda á mig gæti Trump verið að segja þegar hann svaraði spurningum fréttamanna í gær.
Ekki benda á mig gæti Trump verið að segja þegar hann svaraði spurningum fréttamanna í gær. Vísir/AFP
Eftir að hafa þagað þunnu hljóði um eldflaugaviðvörun sem send var út fyrir mistök og olli skelfingu á Havaí um helgina í meira en sólahring tjáði Donald Trump Bandaríkjaforseti um uppákomuna í gær. Sagði hann málið á könnu Havaíríkis en lofaði yfirvöld þar fyrir að taka ábyrgðina.

Mannleg mistök urðu til þess að neyðarviðvörun var gefin út vegna yfirvofandi eldflaugarárásar á Havaí á laugardagsmorgun. Viðvörunin olli skelfingu hjá íbúum eyjanna sem töldu að kjarnorkuárás væri yfirvofandi. Mistökin voru ekki leiðrétt fyrr en um klukkustund síðar.

Trump tjáði sig ekkert um uppákomuna á laugardag en var á golfvellinum þegar hún átti sér stað. Síðar um daginn hélt hann hins vegar áfram að tísta um höfund bókarinnar „Eldur og brennisteinn“ sem farið hefur fyrir brjóstið á forsetanum og gagnrýni á fjölmiðla.

Hvíta húsið gaf aftur á móti út yfirlýsingu þar sem það skellti skuldinni alfarið á yfirvöld Havaíríkis.

Svona litu skilaboðin sem íbúar Havaí fengu send á laugardagsmorgun út.Vísir/AFP
Segir ábyrgðina algerlega hjá ríkinu

Það var ekki fyrr en í gær sem Trump lét hafa nokkuð eftir sér um atvikið sem hefur vakið efasemdir um hversu vel Bandaríkin séu undirbúin fyrir kjarnorkuárás. Lagði hann mesta áherslu á að það sem gerðist hefði verið á ábyrgð yfirvalda á Havaí.

„Þetta var ríkisdæmi en við ætlum að láta til okkar taka hjá þeim. Ég elska að þau tóku ábyrgðina, þau tóku algerlega ábyrgðina en við ætlum að taka þátt,“ sagði Trump við fréttamenn í gær að sögn CNN.

Trump hefur undanfarið magnað upp spennu í samskiptum Bandaríkjanna við Norður-Kóreu í tengslum við kjarnorku- og eldflaugatilraunir stjórnvalda þar. Hefur hann ítrekað ögrað Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, uppnefnt hann og hótað.

Forsetinn var spurður að því hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að mistök eins og þau sem áttu sér stað á Havaí endurtækju sig.

„Ég vona að þau endurtaki sig ekki en hluti af þessu er að fólk er á nálum og kannski á endanum getum við leyst vandamálið og það þarf ekki að vera svona á nálum,“ svaraði Trump.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×