Erlent

Tyrkir undirbúa árásir á Kúrda í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/AFP
Tyrkir undirbúa nú að gera árás á Afrin hérað í Sýrlandi, þar sem sýrlenskir Kúrdar ráða ríkjum. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir markmiðið vera að hreinsa svæðið af „hryðjuverkamönnum“ og fer fram á stuðning Bandaríkjanna. Bandaríkin hafa hins vegar veitt sýrlenskum Kúrdum og bandamönnum þeirra mikinn stuðning gegn Íslamska ríkinu.

Erdogan segir að innrás í Afrin gæti hafist þá og þegar.

Kúrdarnir sem stjórna Afrin kallast YPG og eru þeir álitnir vera hryðjuverkahópur í Tyrklandi og nátengdur Verkamannaflokki Kúrda. Bandaríkin hafa þó staðið við bakið á YPG og bandamönnum þeirra, sem mynda regnhlífarsamtökin SDF eða Syrian Democratic Forces og stjórna stórum hluta Sýrlands, í baráttu þeirra gegn Íslamska ríkinu.



Árið 2016 gerðu Tyrkir innrás í Sýrland til að koma í veg fyrir að sýrlenskir Kúrdar næðu tökum á gervöllum landamærum Sýrlands og Tyrklands og skiptu þeir yfirráðasvæði Kúrda í tvennt.

Tyrkir vilja reka Kúrda frá Afrin og sömuleiðis frá Manbij.Vísir/GraphicNews
Erdogan segir hins vegar að hann búist við stuðningi Bandaríkjanna gegn YPG í Afrin.



„Ef hryðjuverkamennirnir í Afrin gefast ekki upp munum við rífa þá niður,“ sagði Erdogan við tyrkneska þingmenn um helgina.

Kúrdar í Afrin segja að þeir munu vera svæðið og ætli sér ekki að gefast upp. Þá saka þeir Tyrki um að brjóta á rétti Sýrlendinga og að grafa undan alþjóðlegri viðleitni til að finna lausn á átökunum þar í landi.

Fregnir hafa borist af því að Bandaríkin vinni nú með SDF að því að þjálfa um 30 þúsund landamæraverði í Sýrlandi. Talsmaður Erdogan sagði í dag að það væri óboðlegt og að Bandaríkin væru að reyna að auka trúverðugleika og lögmæti SDF til að stjórna svæði í Sýrlandi. Tyrkir gætu ekki og myndu ekki sætta sig við það.


Tengdar fréttir

Slepptu ISIS-liðum og fjölskyldum þeirra frá Raqqa

Sýrlenskir Kúrdar, bandamenn þeirra, Bandaríkin, Bretar og bandalag þeirra gegn Íslamska ríkinu gerði samkomulag við hundruð vígamanna ISIS um að sleppa þeim og fjölskyldum þeirra frá Raqqa í Sýrlandi.

Assad kallar Kúrda „svikara“

Forsetinn, sem hefur notið stuðnings Rússlands og Íran, sagði þá þjóna hagsmunum annarra ríkja, aðallega Bandaríkjanna, og að í rauninni væru þeir ekki Kúrdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×