Erlent

Fjórir féllu í skærum Indverja og Pakistana í Kasmír

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður sem tilheyrir vopnuðum sveitum sem styðja indverska herinn í Kasmírhéraði.
Maður sem tilheyrir vopnuðum sveitum sem styðja indverska herinn í Kasmírhéraði. Vísir/AFP
Indverjar og Pakistanar kenna hvor öðrum um að hafa brotið vopnahlé í Kasmírhéraði í dag. Fjórir pakistanskir hermenn féllu fyrir indverskum byssukúlum. Pakistanar fullyrða að þeir hafi fellt þrjá indverska hermenn á móti en Indverjar neita því.

Kjarnorkuríkin tvö hafa karpað um Kasmírhérað í Himalajafjöllum um áratugaskeið en þau gera bæði tilkall til þess. Pakistanski herinn segir að hermenn á hans vegum hafi unnið að viðgerðum á fjarskiptalínum þegar indverskir hermenn hafi hafið skothríð á þá. Þeir hafi verið sín megin landamæra þar.

Indverski herinn fullyrðir aftur á móti að það hafi verið pakistönsku hermennirnir sem hafi átt frumkvæðið að átökunum. Pakistanskir hermenn hafi fallið þegar þeir indversku svöruðu skothríðinni. Ekkert mannfall hafi orðið þeirra megin, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Þá felldu indverskir hermenn að minnsta kosti fimm uppreisnarmenn í skotbardaga eftir að þeir fóru inn á yfirráðasvæði Indverja í Kasmír. Uppreisnarmennirnir krefjast þess að héraðið verði sameinað undir stjórn annars hvors ríkisins eða að það verði sjálfstætt ríki. Indverjar saka Pakistana um að  vopna og þjálfa uppreisnarmennina. Því hafa stjórnvöld í Pakistan neitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×