Erlent

Líkir árásum Trump á fjölmiðla við Stalín

Kjartan Kjartansson skrifar
Líkt og Jósef Stalín um pólitíska andstæðinga hefur Trump talað um fjölmiðla sem óvini þjóðarinnar.
Líkt og Jósef Stalín um pólitíska andstæðinga hefur Trump talað um fjölmiðla sem óvini þjóðarinnar. Vísir
Yfirlýsingar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að fjölmiðlar séu „óvinir þjóðarinnar“ eru í anda Jósefs Stalíns og eiga ekki heima í pólitískri orðræðu, að mati öldungardeildarþingmanns Repúblikanaflokksins. Hann hyggst fordæma árásir Trump á fjölmiðla í ræðu í þinginu í vikinni.

Jeff Flake, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Arizona, fullyrðir að Trump hafi fengið orðalagið um „óvini þjóðarinnar“ frá Stalín. Í viðtali við MSNBC sagði Flake að Nikita Krútsjev, sem tók við af Stalín sem leiðtogi Sovétríkjanna sálugu, hafi bannað notkun þess því að það væri of gildishlaðið og kastaði rýrð á heila stétt fólks.

„Ég held að við ættum ekki að nota orðalag sem sovéskur einræðisherra hefur hafnað sem of gildishlöðnu,“ sagði Flake en hann ætlar að gagnrýna Trump í ræðu í öldungadeildinni á miðvikudag, að því er segir í frétt Politico.

Ættu að tortryggja Trump frekar en fjölmiðla

Flake hefur verið gagnrýninn á Trump, ekki síst eftir að hann ákvað að gefa ekki aftur kost á sér til endurkjörs. Hann segir ekki eðlilegt að stjórnmálamenn fylki sér að baki hefðbundnum flokkslínum eins og nú sé að gerast.

„Fólk verður að standa upp og segja að þetta sé ekki rétt. Þetta er ekki eðlilegt,“ segir Flake sem telur hegðun Trump ekki í lagi.

Samkvæmt drögum að ræðunni sem hann hyggst flytja á miðvikudag ætlar Flake að vara við því að sannleikurinn hafi legið undir árás á liðnu ári sem aldrei fyrr í sögu Bandaríkjanna. Hvíta húsið standi í daglegum árásum á frjálsa fjölmiðla.

„[...] þegar valdamaður kallar ósjálfrátt alla umfjöllun sem hentar honum ekki „falsfréttir“ þá ætti að sú manneskja að vera tortryggð, ekki fjölmiðlar,“ ætlar Flake að segja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×