Enski boltinn

Stór stund á ferli Cyrille Regis var á Laugardalsvellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cyrille Regis í leiknum á móti Íslandi á Laugardalsvellinum.
Cyrille Regis í leiknum á móti Íslandi á Laugardalsvellinum. Vísir/Getty
Englendingar hafa í dag minnst knattspyrnumannsins Cyrille Regis sem lést í gær aðeins 59 ára gamall.

Regis var meðal frumkvöðla svartra fótboltamanna á sínum tíma og spilaði í frægri framlínu West Brom Albion þar sem hann skoraði 112 mörk í 297 leikjum á árunum 1977 til 1984.





Ísland kemur við sögu á ferli Cyrille Regis en fyrsti leikur hans í byrjunarliði enska landsliðsins var einmitt á móti Íslandi á Laugardalsvellinum 2. júní 1982.

Regis spilaði reyndar aðeins í 40 mínútur en þurfti þá að fara af velli. Hann lék aðeins tvo landsleiki til viðbótar á ferlinum.

Leikur Íslands og Englands endaði með 1-1 jafntefli en Arnór Guðjohnsen kom íslenska liðinu í 1-0 í fyrri hálfleik. Jöfnunarmark Englendinga skoraði Paul Goddard sem hafði einmitt komið inná fyrir Regis.

Arnór átti mjög góðan leik og fékk gott færi til að skora sitt annað mark í seinni hálfleiknum.

Besti leikmaður enska landsliðsins var aftur á móti Glenn Hoddle sem þarna var 22 ára gamall og aðeins að spila sinn ellefta landsleik. Þeir áttu eftir að verða 53 talsins þar af tveir þeirra á HM á Spáni nokkrum vikum seinna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×