Erlent

Gríðarleg olíubrák eftir íranska flutningaskipið sem sökk

Kjartan Kjartansson skrifar
Eldur logaði í Sanchi í viku eftir að það rakst á flutningaskip fyrir rúmri viku. Skipið er nú sokkið.
Eldur logaði í Sanchi í viku eftir að það rakst á flutningaskip fyrir rúmri viku. Skipið er nú sokkið. Vísir/AFP
Kínversk skip reyna nú að hreinsa upp olíuleka úr íranska olíuflutningaskipinu Sanchi sem sökk í gær. Olíubrákin er sögð þekja um 120 ferkílómetra svæði í Austur-Kínahafi. Talið er að áhöfnin hafi öll farist með skipinu.

Um 136.000 tonn af þunnfljótandi olíu voru um borð í skipinu. Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC er talið að olían sem lak út í hafið sé þyngri olía sem var notuð til að knýja skipið. Þunnfljótandi olían gæti hins vegar myndað brák undir yfirborði sjávar sem sést ekki ofan þess.

Sanchi hafði marað logandi í hafinu frá 6. janúar þegar það rakst á kínverskt flutningaskip um 260 kílómetra undan ströndum Sjanghæ. Þrjátiu og tveir skipverjar voru um borð, þrjátíu Íranar og tveir Bangladessar. Íranskir embættismenn segja nú að þeir hafi allir farist.

Hreinsunarstarf hófst í dag eftir að tókst að slökkva eld sem logaði í olíunni á yfirborði hafsins. Tvö skip dæla nú efnum út í sjóinn til að leysa olíuna upp. BBC segir að olíulekinn hafi tvölfaldast að flatarmáli frá því í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×