Skoðun

Lausnir í stað loftkastala

Áslaug Friðriksdóttir skrifar
Nú þegar vel viðrar í efnahagsmálum ættu borgarbúar að vera að njóta þess í einhverjum mæli. Svo er þó ekki. Áhersla á þjónustu við íbúa er engin en púðrið fer í að byggja loftkastala og tala í frösum um hvað allt verður frábært einhvern tíma seinna. Búið er að leysa húsnæðisvandann einhvern tíma seinna, búið er að leysa samgönguvandann einhvern tíma seinna og allt verður svo frábært, bara einhvern tíma seinna.

Runnið er upp fyrir borgarbúum að viðhaldi á eignum, húsnæði, aðstöðu og götum er ekki sinnt. Barnafjölskyldum er ekki sinnt. Íbúar sem þurfa aðstoð fá ekki þjónustuna sem þeir þurfa. Biðlistar eftir húsnæði lengjast. Samgöngubætur eru ekki á dagskrá og lítið er gefið fyrir kvartanir þeirra sem sitja langdvölum í umferðarteppum. Það virðist ekki í verkahring meirihlutans í Reykjavík að hlusta á fólk frekar en að bera ábyrgð á því sem miður fer.

Sem betur fer styttist í kosningar. Þá gefst borgarbúum tækifæri til að senda skýr skilaboð. Forgangsraða þarf í rekstrinum þannig að þjónusta við íbúa sé í forgangi. Hefja verður sókn í leikskóla- og menntamálum, gera starfsumhverfið aðlaðandi, auka sjálfstæði rekstrareininga og tryggja íbúum mannsæmandi þjónustu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa staðið í ströngu við að leggja fram tillögur til breytinga. Tillögur til að minna á að þjónustan við borgarbúa hefur verið vanrækt. Tillögur um nýsköpun. Tillögur um aðgerðir til að draga úr veikindum. Tillögur um samgönguúrbætur. Tillögur um innleiðingu velferðartækni. Tillögum um umbætur í ólíkum hverfum. Flestum þeirra hefur verið ýtt út af borðinu.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að höfða til breiðs hóps kjósenda til að fá umboð til að leiða þetta mikilvæga umbótastarf. Til þess þarf forystan að hafa breiða skírskotun, góða reynslu og skilja fólkið sem borgarkerfið á að þjóna. Það er mitt hjartans mál að þessar umbætur nái fram að ganga. Því óska ég eftir stuðningi þínum.

 

Höfundur er borgarfulltrúi og frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×