Viðskipti erlent

Ces 2018: Bestu tækin sem við þurfum ekki á að halda

Samúel Karl Ólason skrifar
Það kennir iðulega margra grasa á CES.
Það kennir iðulega margra grasa á CES. Vísir
CES ráðstefnan stóð yfir um helgina þar sem tæknifyrirtæki um heim allan komu saman í Las Vegas til að sýna nýjustu vörur sínar og getu. Þar má iðulega finna tæki og tól sem þykja framúrskarandi og flott en á sama tíma er fólk meðvitað um að þörfin á þessum tækjum þarf ekki að vera mikil. Sum tækin eru þó þarfari en önnur.

Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir nokkur af helstu tækjum CES 2018.

Hyperkin - Ultra Game Boy

Fyrirtækið Hyperkin ætlar sér að fylla upp í ákveðið tómarúm sem margir finna innra með sér, með því að endurgera hina gömlu Game Boy lófatölvu. Nú ber tölvan nafnið Ultra Boy en hún heldur sama gamla útlitinu og spilar meira að segja gömlu leikina sjálfa.

Eflaust eru margir sem hafa áhuga á þessari.

Samsung - The Wall

Tæknirisinn Samsung kynnti 146 tommu sjónvarp sem ber réttnefnið The Wall, eða Veggurinn. Sjónvarpið notast við MicroLED tækni Samsung og er í raun búið til úr mörgum einingum. Það gæti verið minna og mun stærra þar sem tæknin var þróuð fyrir kvikmyndahús. Samsung segir að notendur geti bætt við eða fjarlægt einingar að vild og breytt hlutföllum Veggsins án þess að það komi niður á myndgæðum að nokkru leyti.

Veggurinn á að koma í verslanir á árinu og ekkert hefur verið gefið út varðandi mögulegt verð.

LG Display - Upprúllanlegt OLED sjónvarp

65 tommu sjónvarp sem hægt er að rúlla upp og flytja með einstaklega litlum vandræðum. Nei, við erum ekki að tala um eitthvað úr Star Trek. Fyrirtækið LG Display hefur gert það að veruleika með því að nýta OLED tækni fyrirtækisins til hins ýtrasta.

Sjónvarpið býður upp á 4K upplausn og rúllast sjónvarpið saman í kassa sem fylgir því. Það er þó hægt að láta sjónvarpið stinga kollinum, ef svo má að orði komast, upp úr kassanum og nýta hluta þess. 

LG Display - 88-tommu 8K OLED sjónvarp

LG sýndi einnig 88 tommu 8K OLED sjónvarp. 8K upplausn gefur áhorfendum fjórum sinnum meiri upplausn en 4K, sem er mikið. Gallinn er hins vegar sá að það er ekki til neitt efni sem hægt er að horfa á í 8K upplausn, en það kemur á endanum.

Þetta sjónvarp mun koma í verslanir á árinu og mun væntanlega kosta mjög mikið.

Ubtech - Walker

Vélmenni spiluðu stóra rullu á CES 2018. Vélmennið Walker frá Ubtech vakti hvað mesta athygli að þessu sinni en það er gangandi vélmenni sem ætlað er að vakta heimili, svara raddskipunum og margt fleira. Mögulega gæti vélmennið passað börn.

Walker er með innbyggða hreyfiskynjara og getur varað húseigendur við hreyfingum á heimilum þeirra og tekið upp atvik.

Ubtech vonast til þess að byrja að selja vélmennið árið 2019 og þá stendur til að það verði með hendur einnig.

Sony - Aibo

Sony hefur undanfarin ár unnið að því að endurvekja Aibo í nútímalegri formi. Aibo er líklegast krúttlegasta vélmennið sem var sýnt á CES að þessu sinni. Aibo býr yfir 22 hreyflum sem gera hann nokkuð líflegan og sömuleiðis er hann þakinn skynjurum svo hann greini klapp og klór. Þar að auki er hann með myndavél í nefinu sem gerir honum kleift að þekkja eigendur sína og greina umhverfi sitt.

Aibo er eingöngu ætlað að vera leikfang hvergi á honum má finna snertiskjá. Hver hleðsla dugar til tveggja tíma leiks og tekur um þrjá tíma að hlaða hann.

Vuzix - Blade snjallgleraugu

Þó Google Glass gleraugun séu dauð heldur fyrirtækið Vuzix enn í vonina. Fyrirtækið kynnti snjallgleraugun Blade á CES með innbyggðri Alexu. Hægt er að taka myndir, skoða myndir og samfélagsmiðlum, hringja og margt fleira með ­Blade.

Blaðamenn ytra segja ljóst að Blade sé stórt skref fram á við séu gleraugun borin saman við Google Glass.

Til stendur að hefja sölu gleraugnanna á næstu mánuðum.

Skully Tech. - Fenix AR tæknivæddur mótorhjólahjálmur

Fyrirtækið Skully Technologies fetar svipaðar slóðir með Fenix. Mótorhjólahjálmi sem býður einnig upp á viðbættan raunveruleika (Augmented reality).

Það helsta sem hjálmurinn býður upp á er 180 gráðu sjón afturábak með myndavélum í hnakka hjálmsins. Það sem þær sjá er svo varpað á gler hjálmsins að framanverðu. Einnig getur maður talaði í símann með hjálminn á höfðinu þar sem finna má innbyggða hátalara og hljóðnema.



Whirlpool - Snjallísskápur

Það er hvergi hægt að halda tæknisýningu án þess að einhverjir mæti á svæðið með ísskápa. Margir þeirra eru mjög flottir en að þessu sinni hefur ísskápur Whirlpool vakið mikla athygli. Ekki endilega fyrir það að vera einstaklega tæknivæddur og flottur, heldur þá sérstaklega fyrir það vera góður og vel hannaður ísskápur.

Eigendur ísskápsins munu ekki geta skipulagt lífið frá snertiskjá ísskápsins en þeir munu geta pantað hluti í gegnum Amazon og stillt ísskápinn eftir eigin höfði.

Nanoleaf - Snjallljós

Fyrirtækið Nanoleaf vill að við þekjum veggi okkar með litlum gagnvirkum LED ljósum. Þannig getur fólk breytt litnum á herbergi sínu eftir skapi sínu og jafnvel látið ljósin breyta um lit þegar þau eru snert.

Jafnvel er hægt að tengja ljósin við tónlist sem spiluð er svo þau haga sér eftir henni. Hvert herbergi getur þannig orðið að lummó diskóteki.

Toyota - e-Palette concept vehicle

Toyota sló í gegn á CES í ár með nýjan farartækinu e-Palette. Það er rafknúið og sjálfvirkt farartæki sem hægt er að útbúa með hverju sem er, hvort sem það eru sæti, skjáir, hillur eða jafnvel rúm.

Forsvarsmenn fyrirtækisins segja mögulegt að e-Palette munu spila stóra rullu í borgum framtíðarinnar og að hægt væri að nota farartækið í hvað sem er.

E-Palette er svar fyrirtækisins við innkomu tæknirisa eins og Google á bílamarkaði. 

ForwardX - CX-1 ferðataska

Það getur verið óþolandi að burðast með ferðatöskuna um flugvelli heimsins en nú er svarið komið. CX-1 er í grunninn sjálfkeyrandi ferðataska sem eltir eiganda sinn um flugvelli. Nema einhver taki hana upp og hlaupi í burtu.

Ferðataskan notast við andlitsgreiningu til að finna eiganda sinn og með sérstöku armbandi getur taskan ávalt fundið eigandann aftur ef hann fer úr augsýn. Armbandið varar líka eigendur við ef taskan er komin of langt í burtu.

Þar að auki er rafhlaða í töskunni sem eigendur geta notað til að hlaða síma sína í hvelli. Svo má auðvitað ekki gleyma því að það er hægt að setja farangur í ferðatöskuna snjöllu.

Kohler - Snjallklósett

Eflaust eru einhverjir sem telja mikla þörf á því að klósett búi yfir gervigreind. Að hægt sé að biðja Alexu um að sturta niður ef það gleymist.

Fyrirtækið Kohler ætlar að treysta á það fólk og kynnti nýtt klósett á CES sem spilar tónlist, hitar setuna, hitar fætur þess sem situr á því og er jafnvel búið næturljósi.

Wireless Mobi Solution - Movi Phone

Símarnir eru sífellt að verða umsvifameiri í lífum okkar og við eyðum sífellt meiri tíma í að horfa á skjái þeirra. Fyrirtækið Wireless Mobi Solution, WMS, hefur ákveðið að taka þessa þróun skrefinu lengra og sett skjávarpa inn í símann Movi. Með skjávarpanum er hægt að varpa 720p mynd á veggi í allt að tveggja og hálfs metra stærð.

Þetta er ekki fyrsti síminn með skjávarpa en það sem gerir Movisímann sérstakan er að það fer nánast ekkert fyrir skjávarpanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×