Erlent

Leggja til að Dancila verði nýr forsætisráðherra

Atli Ísleifsson skrifar
Viorica Dancila hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá árinu 2009.
Viorica Dancila hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá árinu 2009. Vísir/psd
Rúmenski Jafnaðarmannaflokkurinn (PSD) hefur tilnefnt Evrópuþingmanninn Viorica Dancila sem nýjan forsætisráðherra landsins í kjölfar afsagnar Mihai Tudose.

Reuters segir frá því að hin 54 ára Dancila sé náinn bandamaður flokksformannsins Liviu Dragnea, en hún hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá árinu 2009.

Flokkurinn var einhuga í valinu á Dancila sem næsti forsætisráðherra. Fyrr í dag skipaði Klaus Iohannis Rúmeníuforseti Mihai Fifor varnarmálaráðherra forsætisráðherra til bráðabirgða.

Flokksráð PSD mun á morgun formlega leggja til við forsetann að Dancila verði tilnefnd sem næsti forsætisráðherra. Samþykki Iohannis tillöguna þarf þingið að kjósa um hana. Greiði meirihluti þings með tillögunni mun Dancila taka svo við forsætisráðherraembættinu.

Deilur við flokksformanninn

Tudose sagði af sér eftir að þingið samþykkti vantrauststillögu á hendur honum þar sem margir þingmenn PSD greiddu atkvæði með tillögunni.

Tudose hafði átt í deilum við Dragnea, en þær stigmögnuðust í síðustu viku þegar Tudose bað innanríkisráðherra landsins, sem er náinn bandamaður Dragnea, um að segja af sér.

Dragnea er með sterk ítök í flokknum og ríkisstjórn, þrátt fyrir að hann geti sjálfur ekki gegnt embætti forsætisráðherra eftir að hafa hlotið dóm fyrir kosningasvindl.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra Rúmeníu segir af sér

Mihai Tudose hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Rúmeníu eftir að þingmenn úr Jafnaðarmannaflokki landsins neituðu að lýsa yfir stuðningi við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×