Neytendur

Hinn umdeildi Vegaborgari verður nú vegan: „Þetta er ógeðslega fyndið“

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Bryndís segir veganborgaramálið hið allra fyndnasta.
Bryndís segir veganborgaramálið hið allra fyndnasta. Vísir/Samsett
Tekin hefur verið ákvörðun um að breyta Vegaborgaranum umdeilda, sem Olís steikir ofan í viðskiptavini sína, í vegan hamborgara. Bryndís Steinunn, förðunarfræðingur og biblíukennari, hefur tekið gleði sína á ný en hún komst að því á sunnudaginn að hamborgarinn sem hún hafði keypt var ekki vegan, líkt og Vísir greindi frá.

„Þetta er náttúrlega ógeðslega fyndið og vatt þvílíkt upp á sig,“ segir Bryndís í samtali við Vísi. „Þetta átti ekki að vera svona rosalegt mál.“

Hún segir að fulltrúi frá Olís hafi hringt í sig áðan og fært henni fregnirnar. Var henni tjáð að mikið hefði verið hlegið að atvikinu á þeirra skrifstofum og hafi í kjölfarið verið sest niður og þessi ákvörðun tekin.

Samkvæmt upplýsingum frá Olís verður Vegaborgarinn því alveg laus við dýraafurðir en sósunni verður skipt út fyrir vegan-sósu og þá verður buffið einnig vegan.

Bryndís greindi frá tíðindunum á hópnum Vegan Ísland.skjáskot
Fær að smakka fyrsta borgarann

Bryndís hafði húmor fyrir uppákomunni en fannst þetta mjög villandi. Hún hafði lofað unglingnum á heimilinu hamborgara í kvöldmat og var því ákveðið að fara á Olís að smakka „veganborgarann“, en hún tekur um þessar mundir þátt í Veganúar eins og fjölmargir Íslendingar.

Þegar heim var komið borðaði Bryndís borgarann með bestu lyst og setti inn færslu á Facebook-hópinn Vegan Ísland um að hann hefði svo sannarlega ekki valdið vonbrigðum. Var henni þá vinsamlega bent á það að borgarinn héti Vegaborgari og væri ekki vegan.

Aðspurð hvort hún láti ekki verða af því að prófa vegan-útgáfu hamborgarans segist hún hiklaust munu gera það.

„Ég mæti alveg pottþétt! Mér var sagt að ég ætti að fá að verða fyrst til þess að smakka hann,“ segir Bryndís Steinunn að lokum.

Hér að neðan má síðan sjá tilkynningu frá Olís um að borgarinn væri nú vegan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×