Enski boltinn

Mignolet ósáttur og hugsar sér til hreyfings

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Simon Mignolet.
Simon Mignolet. Vísir/Getty
Simon Mignolet er ekki sáttur með að vera orðinn varamarkvörður Liverpool og ætlar að endurskoða framtíð sína hjá félaginu.

Mignolet var fyrsta val Jurgen Klopp í markvarðarstöðuna en nú hefur Loris Karius komist upp fyrir Mignolet í goggunarröðinni. Mignolet hefur ekki spilað síðan á nýársdag og fyrir leikinn gegn City um helgina sagði Klopp að markvarðarstaðan væri í höndum Kariusar.

„Fyrir tíu dögum, eftir leikinn gegn Burnley [á nýársdag], talaði ég við Klopp. Við höfðum verið að rótera liðinu yfir jólin og mér finnst það ekki eðlilegt með markvarðarstöðuna,“ sagði Mignolet við belgíska fjölmiðla.

„Ég er ekki sáttur við þessa stöðu, en ég verð að virða ákvarðanir þjálfarans. Eftir allt sem yfir hefur gengið þá veit ég nú hvar ég stend og staðan er orðin skýrari.“

Belginn hefur verið aðalmarkvörður Liverpool síðan hann kom til félagsins árið 2013 frá Sunderland.

„Ég þarf að hugsa um mína eigin framtíð. Það eina sem ég get gert er að einbeita mér að æfingum og reyna að gera mitt besta. Ég er þrítugur og Heimsmeistaramótið nálgast. Þessi staða má ekki halda áfram of lengi, það er það eina sem ég get sagt um þetta,“ sagði Simon Mignolet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×