Viðskipti innlent

Vilhjálmur Bjarnason í stjórn Bankasýslunnar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Vilhjálmur Bjarnason lektor og fyrrverandi þingmaður.
Vilhjálmur Bjarnason lektor og fyrrverandi þingmaður. Vísir/Stefán
Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Háskóla Íslands og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið sæti í stjórn Bankasýslu ríkisins sem fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Kemur Vilhjálmur inn í stjórnina í stað Almars Guðmundssonar sem var nýlega ráðinn framkvæmdastjóri Krítar fjármögnunarlausna.

Vilhjálmur tilkynnti í síðustu viku um framboð sitt í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem verður haldið í næstu viku.

Aðeins eru um fimm mánuðir síðan Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra, skipaði nýja stjórn Bankasýslunnar. Tóku þá þau Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, og Almar sæti í stjórninni en Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður var endurskipaður stjórnarformaður.

Það var Benedikt sem skipaði einnig Vilhjálm í stjórnina í stað Almars, en auk þess hefur Hildur H. Dungal tekið sæti í varastjórn í stað Egils Tryggvasonar.



Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti ogfjármál.

Athugasemd kl. 09:59: Í upphaflegri útgáfu fréttinnar sagði að Bjarni Benediktsson, nýr fjármála- og efnahagsráðherra, hefði skipað Vilhjálm Bjarnason í stjórn Bankasýslunnar. Hið rétta er að það var Benedikt Jóhannesson, þáverandi ráðherra, sem gerði það. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×