Innlent

Nær tvöföldun á öldruðum í áfengismeðferð

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Á læknadögum í dag fjallaði Hildur Þórarinsdóttir, sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum, um áfengismisnotkun aldraðra en margt bendir til að um falinn, vaxandi vanda sé að ræða.

„Við sjáum það á öldrunardeildum og öllum legudeildum Landspítalans að stór hluti fólks er með áfengis- eða fíknisjúkdóm líka.“

Fjölgunin sést svart á hvítu á innlögnum á sjúkrahúsið Vog.

Frá árinu 2001 hefur orðið 78 prósent fjölgun á innlögnum 60 ára og eldri á sjúkrahúsinu Vogi. Einnig hefur fjölgað þeim sem eru eldri en 60 ára og leita sér hjálpar í fyrsta skipti á sjúkrahúsinu.

Frá árunum 2002-2008 voru þeir 213 en á árunum 2009-2015 voru 269. Það er 26% fjölgun.

Þar af hefur þeim sem eru 69 ára og eldri - og eru að fara í sína fyrstu meðferð - fjölgað úr 50 í 66 eða um 32%

Hildur segir ekki óalgengt að fólk þrói með sér fíknisjúkdóm á efri árum.



Hildur Þórarinsdóttir, sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum


„Það breytast ákveðnir hlutir þegar fólk eldist. Þegar það fer út af vinnumarkaði og missir félagsleg hlutverk. Eða verður veikt eða veikindi maka koma upp, þá eykst drykkjan og með aukinni drykkju aukast líkur á að fólk þrói með sér fíknisjúkdóm.“

Erlendar rannsóknir sýna að aðeins 7% af þeim sem þurfa meðferð fái meðferð.

„Það er oft mikil skömm sem fylgir þessum sjúkdóm, fólk er að berjast við sína eigin fordóma og ættingjar að hylma yfir hlutunum,“ segir Hildur Þórarinsdóttir, öldrunarlæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×