Innlent

„Lít svo á að ef opinberum starfsmönnum er hótað þá beri að kæra það til lögreglu“

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Formaður Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna furðar sig á því af hverju eigandi iðnaðarhúsnæðis hafi komist upp með að hafa haft í hótunum við slökkviliðsmann vegna úttektar en grunur var um að búseta væri í húsinu. Hann kallar eftir umræðu um mál sem þessi.

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins áformi lokun á ólöglegu leiguhúsnæði við Köllunarklettsveg 4 en slökkviliðið og lögregla réðust til aðgerða vegna hússins í nóvember fyrir rúmu ári. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er búið í ósamþykktu húsinu og vegna búsetunnar er brunavörnum áfátt og ekki reglum samkvæm. Eigandi hússins vísar því á bug að búið sé í húsinu.

Fram kemur að vegna aðgerðanna fyrir rúmu ári hafi starfsmanni slökkviliðsins borist hótanir en Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri sagði í samtali við blaðið; „að það væri ekkert sem slökkviliðið vilji hafa að aðalatriði í málinu,“ og að „ákveðið stuðningskerfi innan slökkviliðsins sé virkjað þegar hótanir berast.“

Formaður Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna furðar sig ummælum slökkviliðsstjórans.

„Satt best að segja þá kemur það mér á óvart að þessu hafi verið svarað með þessum hætti vegna þess að ég lít svo á að ef opinberum starfsmönnum er hótað þá beri að kæra það til lögreglu,“ segir Stefán Pétursson, formaður Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Stefán telur að starfsöryggi eldvarnareftirlitsmanna sé heilt yfir tryggt en oft á tíðum þurfi þeir að taka ákvarðanir sem sem húseigendum geti þótt óréttlátar. Þeir vinni þó eftir lögum sem séu alveg skýr.

Ekki liggur fyrir hvort önnur sambærileg mál hafi komið upp í störfum eldvarnareftirlitsmanna á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landinu.

„Við höfum engar spurnir haft af þess háttar málum sem vísað er til en ég mun kalla eftir upplýsingum og ferla þetta mál upp,“ segir Stefán.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×