Innlent

Skipulagsráð Kópavogs samþykkti íbúðir í yfirgefnu verslunarhúsi við Furugrund

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Snælandsvídeói, sem lengi var helsta menningarsetur og félagsheimili ungu kynslóðarinnar í Snælandshverfinu, var lokað í september 2014.
Snælandsvídeói, sem lengi var helsta menningarsetur og félagsheimili ungu kynslóðarinnar í Snælandshverfinu, var lokað í september 2014. Vísir/Vilhelm
Umdeild breyting á aðalskipulagi Kópavogs sem felur í sér að byggja má ofan á verslunarhúsið Furugrund 3 og gera að íbúðarhúsnæði var samþykkt í skipulagsráði bæjarins á mánudag.

Í greinargerð með tillögunni segir að breytingin komi til af því að verslunarstarfsemi hafi dregist saman á undanförnum árum og færst annað. Byggja megi eina hæð ofan á húsið sem verði um 1.800 fermetrar og í því megi vera allt að 12 íbúðir á tveimur hæðum en að neðsta hæðin verði skilgreind fyrir verslun og þjónustu. Hársnyrtistofa er í húsinu í dag.

Ása Richardsdóttir, fulltrúi Samfylkingar í skipulagsráðinu, sagðist í bókun taka undir það með íbúum í nágrenninu að það verði ekki aftur tekið að taka eina atvinnureitinn í hverfinu undir íbúðir. „Eitt helsta markmið breytinga er að með þeim skapist skilyrði fyrir þjónustu í nærumhverfi. Varast skal að kjörnir fulltrúar taki ákvarðanir nú sem vinna gegn því markmiði, til lengri framtíðar.“

Áheyrnarfulltrúinn Margrét Júlía Rafnsdóttir úr VG tók í svipaðan streng. „Íbúar munu væntanlega ekki eiga möguleika í framtíðinni á að geta sótt verslun innan hverfis og í göngufæri frá heimili sínu,“ bókaði Margrét og minnti á að íbúarnir hefðu ítrekað mótmælt og komið með tillögur. „Ákjósanlegast hefði verið að Kópavogsbær hefði keypt húseignina og nýtt í þágu íbúa hverfisins.“

Andstaða íbúa minnkaði eftir að hætt var við áform um að leyfa gistiheimili í húsinu.

Allir aðrir fulltrúar samþykktu breytinguna. Í bókun var bent á að verslun hefði ekki þrifist í tæp tíu ár í húsinu þrátt fyrir tilraunir. „Nú er verið að samþykkja að lágmarki tólf íbúðir í næsta nágrenni við skólana í hverfinu. Í kjölfar þess að mikill íbúðaskortur skapaðist á höfuðborgarsvæðinu hefur það verið stefna Kópavogs að fjölga litlum og meðalstórum íbúðum,“ bókaði meirihlutinn. Niðurstaðan væri fengin „eftir fjölda samráðsfunda með íbúum hverfisins“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×