Fótbolti

Simeone segir að Ísland muni tapa öllum leikjum sínum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atletico Madrid.
Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atletico Madrid. vísir/getty
Hinn argentínski Diego Simeone, knattspyrnustjóri spænska liðsins Atletico Madrid, telur að Íslendingar muni tapa öllum leikjum sínum á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Simeone segir í viðtali við nígeríska miðilinn Daily Post að Króatar séu erfiðustu andstæðingar Argentínu. Hann heldur því fram að Nígería verði nú þegar komið áfram þegar liðið mæti Argentínu í lokaleik riðilsins.

„Hættan er í leikjaniðurröðuninni, mér líkar ekki í hvaða röð leikirnir eru. Íslendingar eru auðveldastir. Ef Króatar og Nígeríumenn gera jafntefli þá verðum við að vinna Króata í næsta leik,“ sagði Simeone.

„Í Japan [árið 2002] þá unnum við opnunarleikinn gegn Nígeríu, auðveldasta andstæðingnum, en England og Svíþjóð gerðu jafntefli. Svo unnu Svíar Nígeríu og við þurftum að vinna gegn Englandi, en við töpuðum. En ef við vinnum fyrstu tvo leikina þá verður þetta mun auðveldara.“

Tvö efstu liðin fara upp úr riðlinum að riðlakeppninni lokinni.

„Ef Nígería vinnur Króatíu og við vinnum Ísland, þá verður annar leikurinn erfiður því þá verða Nígeríumenn með sex stig eftir að sigra Ísland.“

Íslenska liðið fær tækifæri á að troða sokk upp í Simeone strax í fyrsta leik liðsins á HM, þann 16. júní í Moskvu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×