Enski boltinn

Jón Daði tryggði Reading áfram með þrennu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Daði skoraði tvö mörk í bláu og eitt í appelsínugulu
Jón Daði skoraði tvö mörk í bláu og eitt í appelsínugulu vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson sá um að koma Reading áfram í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar þegar hann skoraði þrennu í endurteknum leik gegn Stevenage.

Selfyssingurinn kom Reading yfir eftir um hálftíma leik með flottu skoti á færstöng. Hann tvöfaldaði svo forystu Reading með glæsilegu skallamarki rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Þrennan var fullkomnuð á 64. mínútu með því að pota boltanum yfir línuna á stuttu færi.

Frábær frammistaða hjá landsliðsframherjanum, en sá skemmtilegi atburður gerðist í leiknum að Reading þurfti að skipta um búninga í hálfleik. Þeir byrjuðu í sínum venjulegu bláu og hvítu röndóttu treyjum. Gestirnir frá Stevenage voru hins vegar í hvítum treyjum sem þóttu of líkar þeim sem Reading lék í, svo heimamenn skiptu í appelsínugulu varabúninga sína í hálfleik.









Leicester kláraði sitt einvígi við lið Fleetwood með tveimur mörkum frá Kelechi Iheanacho, en hann varð fyrsti leikmaðurinn til þess að skora mark með aðstoð myndbandsdómara á Englandi í leiknum.

Seinna mark Iheanacho var upphaflega dæmt af vegna rangstöðu. Jonathan Moss, dómari leiksins, ákvað að ráðfæra sig við myndbandsdómarann Mike Jones, sem lét vita af því að Nathan Pond hefði spilað Iheanacho réttstæðan og markið var látið standa.

Aron Einar Gunnarsson var enn fjarri góðu gamni hjá Cardiff vegna meiðsla, en liðið vann öruggan 1-4 sigur á Mansfield Town.

Í fjórðu umferðinni mæta engir aðrir en Manchester City í heimsókn til Cardiff og var Pep Guardiola mættur á völlinn í kvöld til þess að fylgjast með næstu andstæðingum sínum.

Sheffield Wednesday vann Carlisle 2-0 og leikur West Ham og Shrewsbury endaði með markalausu jafntefli. Hann fór því til framlengingar, þar sem nú þegar eru liðin búin að spila 180 mínútur án marks.

Það var hinn 21 árs Reece Burke sem bjargaði Hömrunum gegn þriðju deildar liði Shrewsbury með sínu fyrsta marki fyrir þá á 112. mínútu leiksins. Burke hefur nú, þrátt fyrir ungan aldur, skorað mark fyrir fjögur mismunandi félög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×