Erlent

Bayeux-refillinn fer á flakk

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Orrustan við Hastings lifnar við á Bayeux-reflinum.
Orrustan við Hastings lifnar við á Bayeux-reflinum. Vísir/Getty
Talið er að Bayeux-refillinn, eitt af mestu stórvirkjum listasögunnar, verði fluttur frá Frakklandi til Englands þar sem hann mun verða hafður til sýnis. Er þetta í fyrsta sinn í 950 ár sem refillinn yfirgefur franska grundu.

Breska ríkisútvarpið telur að Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, muni tilkynna um lánið til Breta í Englandsheimsókn sinni á morgun. Bretar gætu þó þurft að bíða í allt að fimm ár áður en þeir geta barið refilinn augum enda verður flutningurinn á þessum 70 metra langa, aldagamla klæðisstrendingi enginn hægðarleikur.

Á Bayeux-refilinum er orrustan við Hastings árið 1066 rakin og hefur hann verið varðveittur í safni skammt frá dómkirkjunni í Bayeux í Normandí á undanförnum árum. Refillinn hefur sjaldan verið fluttur úr stað enda orðinn næstum 1000 ára gamall og viðkvæmur sem slíkur. Engu að síður er búist við því að Macron muni tilkynna um lánið á morgun á fundi hans með forsætisráðherra Bretlands, Theresu May.

Viðræður milli menningarmálaráðuneyta landanna eru sagðar hafa staðið yfir undanfarna mánuði. Ekki liggur þó fyrir hvar refilinn mun verða hafður til sýnis í Englandi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bretar hafa falast eftir stórvirkinu. Það gerðu þeir til að mynda fyrir krýningu Elísabetar Englandsdrottningar árið 1953 og svo aftur á 1000 ára afmæli orrustunnar við Hastings árið 1966. Þá var eftirgerð í fullri stærð sett upp í safni í Reading á Englandi árið 1886.

Uppruni refilisins er vinsælt þrætuepli meðal sagnfræðinga en flestir telja í dag að hann hafa verið saumaður af nunnum í Englandi eftir pöntun frá franska bisknum Odo af Bayeux.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×