Handbolti

Aron Pálmars með langflesta tapaða bolta á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/Ernir
Íslenska handboltalandsliðið er á heimleið frá EM í Króatíu eftir að allt fór á versta veg í lokaumferð riðlakeppninnar. Töpuðu boltarnir reyndust íslenska liðinu dýrkeyptir á endanum.

Íslensku strákarnir misstu niður fjögurra marka forskot á síðustu átján mínútunum og töpuðu með þriggja marka mun á móti Serbíu. Svíar unnu svo Króata og því sat íslenska liðið eftir í riðlinum þrátt fyrir sigur á Svíum í fyrsta leik.

Aron Pálmarsson var í risastóru hlutverki í sóknarleik íslenska liðsins og ábyrgð hans mikil. Aron bjó til mikið af færum fyrir félaga sína en hann var einnig með ótrúlega mikið af töpuðum boltum.

Aron tapaði alls sextán boltum í þessum þremur leikjum eða 5,7 að meðaltali í leik. Hann var þannig með helming allra tapaða bolta íslenska liðsins á Evrópumótinu.

Íslenski leikstjórnandinn er líka með yfirburðarforystu á listanum sem enginn vill vera á. Aron er nefnilega með langflesta tapaða bolta til þessa af öllum leikmönnum Evrópumótsins í Króatíu.

Aron hefur tapað fjórum boltum fleira en næsti maður sem er Tékkinn Ondrej Zdráhala. Tékkar eiga eftir að spila sinn þriðja leik í kvöld og því gæti Zdráhala auðvitað tekið fyrsta sætið af Aroni.

Aron er síðan með tvöfalt fleiri tapaða bolta en þriðji maður á listanum en í 3. til 4. sæti eru Ungverjinn Mate Lekai og Hvít-Rússinn Siarhei Shylovich með átta tapaða bolta hvor.

Allan listann má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×