Viðskipti innlent

Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis hafin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lárus Welding mætir í dómsal í morgun.
Lárus Welding mætir í dómsal í morgun. Vísir/Anton Brink
Aðalmeðferð er hafin í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákæra í málinu var gefin út í mars fyrir tveimur árum og málið þingfest mánuði síðar.

Fimm eru ákærðir í málinu. Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, er ákærður fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Þá er Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans, ákærður fyrir markaðsmisnotkun. 

Þeir Valgarð Már Valgarðsson, Jónas Guðmundsson og Pétur Jónsson, fyrrverandi starfsmenn eigin viðskipta Glitnis, einnig ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.  

Verjendur og skjólstæðingar gera allt klárt fyrir aðalmeðferðina í morgun.Vísir/Anton Brink
Teknar verða skýrslur af fjórum ákærðu í dag og svo Lárusi Welding á morgun. Hann er þó mættur í dómssal og fylgist með því sem fram fer.

Þegar málið var þingfest í apríl 2016 neituðu fimmmenningarnir allir sök. Málinu svipar mjög til tveggja annarra markaðsmisnotkunarmála sem sérstakur saksóknari, nú héraðssaksóknari, höfðaði á hendur stjórnendum í hinum stóru bönkunum tveimur fyrir hrun, Kaupþingi og Landsbankanum.

Fylgst verður með gangi mála í dómsal á Vísi en tæplega 50 vitni munu koma fyrir dóminn. Áætlað er að skýrslutökur standi yfir til 24. janúar, þá verði gert nokkurra daga hlé áður en aðalmeðferð lýkur með málflutningi 1. og 2. febrúar miðað við dagskrá dómstólsins.

Nánar má kynna sér efni ákærunnar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×