Handbolti

Hausverkur HSÍ: Ekki meir, Geir, eða áfram gakk?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir Sveinsson hefur stýrt íslenska landsliðinu í tæp tvö ár. Fær hann nýjan samning?
Geir Sveinsson hefur stýrt íslenska landsliðinu í tæp tvö ár. Fær hann nýjan samning? vísir/ernir
Samningur Geirs Sveinssonar, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handbolta, rennur senn út. Sjálfur segist Geir hafa áhuga á að halda áfram með liðið en boltinn sé hjá HSÍ. Forráðamenn Handknattleikssambandsins verða nú að spyrja sig þeirrar spurningar hvort íslenska liðið sé á réttri leið undir stjórn Geirs.

Fátt bendir til þess að svo sé. Geir hefur stýrt Íslandi á tveimur stórmótum. Niðurstaðan er tveir sigrar, tvö jafntefli og fimm töp. Annar sigurinn kom á móti Angóla. Ísland komst í 16 liða úrslit á HM 2017 en fór heim eftir aðeins þrjá leiki á EM í Króatíu. Mikil vonbrigði, sérstaklega eftir góðan sigur á Svíþjóð í fyrsta leik.

Geir var ráðinn landsliðsþjálfari í lok mars 2016 og fékk hin margumtöluðu kynslóðaskipti í fangið. Meðalaldurinn í íslenska liðinu sem tók þátt á EM 2016 var um 30 ár og Geirs beið það verkefni að yngja það upp.

Litlar væntingar en ágætis kaflar

Ísland komst með herkjum inn á HM 2017 og væntingastuðullinn fyrir mótið var ekki hár, sérstaklega ekki eftir að Aron Pálmarsson heltist úr lestinni vegna meiðsla.

Íslenska liðið átti ágætis kafla á HM í Frakklandi en vann aðeins einn af sex leikjum sínum. Rýr uppskera var þó að mörgu leyti skiljanleg. Þrír leikmenn þreyttu frumraun sína á stórmóti á meðan aðrir voru í stærri hlutverkum en áður. Og svo naut Arons ekki við.

Ísland komst með herkjum inn á EM í Króatíu eftir að hafa lent í 3. sæti í sínum riðli í undankeppninni. Aftur voru væntingarnar fyrir stórmót hóflegar.

Vináttulandsleikirnir tveir við Þýskaland fyrir EM fóru illa en Ísland sýndi allt aðra og betri frammistöðu gegn Svíþjóð í fyrsta leik í Split. Fyrstu 40 mínúturnar voru stórkostlegar og Ísland komst mest 10 mörkum yfir. Íslendingar gáfu mikið eftir á síðustu 20 mínútunum en gerðu nóg til að landa góðum sigri.

Íslenska liðið spilaði stórvel í fyrri hálfleik gegn Króötum í öðrum leik sínum en heimamenn stigu á bensíngjöfina í þeim seinni og unnu öruggan sigur. Þrátt fyrir það var Ísland með örlögin í eigin höndum fyrir leikinn gegn Serbíu. En hann fór á versta veg eins og frægt er orðið.

Sóknin enn til vandræða

Þegar á reyndi var engar lausnir að finna og það vantaði betri stjórn inni á vellinum og frá bekknum. Sóknarleikurinn er sama þrotið og á HM í fyrra. Ísland skoraði aðeins 24,7 mörk að meðaltali í leik á EM, samanborið við 25,5 á HM, og skotnýtingin var verri en í Frakklandi (56% á móti 59%).

Eftir síðasta HM talaði Geir um að íslenska liðið yrði að fækka töpuðum boltum. Þeir voru enn sama vandamál í Króatíu en strákarnir töpuðu samtals 31 bolta í leikjunum þremur. Eitthvað af þeim er hægt að skrifa á skipulagsleysi í sóknarleiknum en leikmennirnir eru ekki undanskildir ábyrgð. Geir Sveinsson getur lítið gert við því að besti leikmaður íslenska liðsins kasti boltanum frá sér í tíma og ótíma.

Aron Pálmarsson er heilinn í sóknarleik Íslands, það fer allt í gegnum hann og varnarleikur andstæðinganna miðast að því að stoppa hann. Það afsakar samt ekki að hann tapi 16 boltum í þremur leikjum. Aron var með jafn marga tapaða bolta og stoðsendingar á EM.

Hrun undir lokin

Frammistaða Íslands síðustu 20 mínúturnar í leikjunum þremur á EM er líka rannsóknarefni. Þeim töpuðu strákarnir með samtals 15 mörkum. Íslenska liðið byrjaði leikina vel og vann fyrstu 20 mínútur þeirra með samtals níu mörkum. Næstu 20 mínútur töpuðust með samtals tveimur mörkum en undir lokin hrundi allt. Íslenska liðinu virðist ekki líða vel þegar það er með forystu. Það hefur ekkert lagast frá HM í Frakklandi og versnað ef eitthvað er. Öll lið lenda í mótlæti og slæmum köflum. En á EM voru þeir alltof langir hjá Íslendingum og lausnirnar til að rétta sig af ekki til staðar.

Geir hefur gefið mörgum ungum leikmönnum tækifæri síðan hann tók við íslenska landsliðinu. Janus Daði Smárason, Ómar Ingi Magnússon og Arnar Freyr Arnarsson eiga nú tvö stórmót að baki. Framfarirnar sem þeir hafa sýnt milli þeirra mættu vera meiri en tíminn er með þeim í liði.

Geir ber líka að hrósa fyrir að hafa gert alvöru landsliðsmann úr Ólafi Guðmundssyni. Hafnfirðingurinn hefur verið í landsliðinu síðan 2010 en aldrei í stóru hlutverki fyrr en Geir tók við. Ólafur átti erfitt uppdráttar á HM en var besti leikmaður Íslands á EM. Tölurnar tala sínu máli. Ólafur var markahæstur í íslenska liðinu á EM ásamt Guðjóni Val Sigurðssyni með 14 mörk. Skotnýtingin var 53,8%, miðað við 38,9% á HM, og Ólafur tapaði aðeins einum bolta í leikjunum þremur á EM en 2,8 í meðaltali í leik á HM. Þá er hann í lykilhlutverki í varnarleik Íslands.

Hvar var Gísli Þorgeir?

Það vekur þó furðu hversu fá tækifæri okkar besti ungi leikmaður og einn efnilegasti leikmaður heims, Gísli Þorgeir Kristjánsson, hefur fengið í stjórnartíð Geirs. Strákurinn hefur aðeins komið við sögu í einum landsleik og var ekki í EM-hópnum. Gísli er aðeins 18 ára en það er nógu mikið í hann spunnið til að stórlið Kiel semdi við hann. Það eru góð meðmæli. Hafnfirðingurinn hefði átt að fara með til Króatíu, þó ekki væri nema sem sautjándi maður.

Næsta stóra verkefni íslenska landsliðsins eru umspilsleikir um sæti á HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi. Sem betur fer verður Ísland í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í umspilið. Stóra spurningin er hver verður við stjórnvölinn þá. Fær Geir nýjan samning eða verður nýr maður fenginn? Það er hausverkur HSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×