Erlent

Vantar eitt atkvæði til að fella ákvörðunina úr gildi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Afnáminu hefur verið mótmælt harðlega.
Afnáminu hefur verið mótmælt harðlega. Nordicphotos/AFP
Ríkissaksóknarar 21 ríkis Bandaríkjanna kærðu í gær ákvörðun Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna (FCC) um að afnema reglugerð úr forsetatíð Baracks Obama um nethlutleysi. Þá þurfa Demókratar bara að fá einn Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings til viðbótar til að fella ákvörðun FCC.

Reglurnar fela í sér að netþjónustuaðilar verði að meðhöndla umferð um netið með sama hætti óháð uppruna og áfangastað. Hafa andstæðingar afnámsins haldið því fram að með afnámi opnist sá möguleiki að netþjónustufyrirtæki geti hægt á tengingum við ákveðið efni og selt hraðari aðgang á okurverði. Jafnframt geri afnámið téðum fyrirtækjum kleift að rukka vefsíður fyrir að hægja ekki á tengingu neytenda við þær.

Í kæru saksóknaranna, sem meðal annars eru frá Kaliforníu, New York og Virginíu, segir að með ákvörðun sinni hafi FCC brotið lög og reglugerðir. Um sé að ræða „handahófskennda misnotkun valds“.

Repúblikaninn Susan Collins slóst í lið með Demókrötum á þriðjudag en jafnvel þótt Demókratar tryggi sér stuðning annars Repúblikana biði ærið verkefni þegar afnámið færi fyrir fulltrúadeildina. Þar eru Repúblikanar með enn stærri meirihluta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×