Erlent

Trine segist ekki hafa gert neitt saknæmt

Kristján Már Unnarsson skrifar
Oddvitar stjórnarflokkanna kynntu nýju ríkisstjórnina á blaðamannafundi í Osló í gær. Siv Jensen til vinstri, Erna Solberg fyrir miðju og Trine Skei Grande til hægri.
Oddvitar stjórnarflokkanna kynntu nýju ríkisstjórnina á blaðamannafundi í Osló í gær. Siv Jensen til vinstri, Erna Solberg fyrir miðju og Trine Skei Grande til hægri. Mynd/TV-2, Noregi.
Trine Skei Grande, nýr menningarmálaráðherra Noregs, segist ekki ætla að tjá sig um uppákomu sem varð árið 2008 en segist í viðtali við Verdens Gang telja að hún hafi ekki gert neitt saknæmt. 

„Ég hef lifað eðlilegu líf. Ég ólst upp í Þrændalögum. Ég hef tekið þátt í bæjarhátíðum í Þrændalögum. Þar hafa vissulega gerst hlutir sem hægt er að túlka á þann hátt að það sæmdi ekki menningarmálaráðherra. En þá var ég í allt öðru hlutverki í lífinu. Ég var á allt öðrum stað í lífinu,“ segir Grande, sem nú er 48 ára gömul og formaður Venstre.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að samfélagsmiðlar í Noregi loguðu vegna sögusagna um að hún hefði haft samræði við ungan pilt undir berum himni í brúðkaupsveislu í Þrændalögum fyrir tíu árum. Trine var þá 38 ára gömul, orðin þingmaður og varaformaður flokksins, en pilturinn er ýmist sagður hafa verið sextán eða sautján ára gamall. Bæði er sögð hafa verið drukkin og vitni hafi séð hvað gerðist. 

„Ég tel að ég hafi ekki gert neitt rangt. En ég vil ekki segja neitt um atvikið vegna annarra sem hlut eiga að máli. 

Ég skil að ég þurfi að svara til að verja mína æru. En það þarf líka að gæta að öðrum sem koma við sögu,“ segir Grande við VG. 

Maðurinn ungi hefur hvorki viljað veita fjölmiðlum viðtal né gefa neins konar yfirlýsingu. 

Fram hefur komið að Trine hafi gert Ernu Solberg forsætisráðherra grein fyrir málavöxtum í stjórnarmyndunarviðræðunum fyrr í mánuðinum. 

„Eðlilegt er að ráðherrar tali um erfiða hluti. Trine hefur verið algjörlega opin við mig um þetta mál. Hún er ráðherra í dag. Ég hef sagt að það sem við höfum talað um okkar á milli verður á milli okkar. En það eru auðvitað skýr skilaboð að hún situr í ríkisstjórn í dag,“ sagði Erna Solberg. 

-Útskýrði hún málið fyrir þér í smáatriðum? 

„Já. Hún sagði mér hvað hafði gerst, út frá sinni hlið. En ég fer ekki út í það," svaraði Solberg.


Tengdar fréttir

Kvennastjórn í skugga krassandi kynlífssögu

Ný hægrigræn ríkisstjórn tók við völdum í Noregi í dag. Sögusagnir um kynlífshneyksli nýs menntamálaráðherra skyggja hins vegar á stjórnarskiptin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×