Innlent

Matsmaður fyrir OR-húsið enn ófundinn

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Vesturhús OR er ónothæft sökum raka og myglu.
Vesturhús OR er ónothæft sökum raka og myglu. vísir/anton brink
Enn hefur ekki verið skipaður dómkvaddur matsmaður til að meta galla og tjón á vesturhúsi Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Fyrirtækið lagði fram matsbeiðni fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þann 20. september síðastliðinn.

Matsmanni er ætlað að meta kostnað við úrbætur á göllum á húsinu og skila af sér rökstuddu áliti. Orkuveitan hefur greint frá að matið kunni að vera notað í dómsmáli þar sem farið verður fram á bætur frá matsþola, sem í þessu tilfelli eru ellefu fyrirtæki sem ýmist komu að hönnun, framkvæmdum eða útveguðu byggingarefni í höfuðstöðvar OR við Bæjarháls á sínum tíma.

Hinn 20. nóvember greindi OR frá því að ákveðið hefði verið að kaupa aftur höfuðstöðvar fyrirtækisins af fasteignafélaginu Fossi á 5,5 milljarða króna. Endurkaupin eru forsenda þess að hægt sé að hrinda í framkvæmd einhverjum þeirra sex valkosta sem lagðir hafa verið til að endurbótum á vesturhúsinu. Áætlaður kostnaður við þessa valkosti er frá 1,5 til þriggja milljarða króna.

Samkvæmt upplýsingum frá OR hefur engin ákvörðun verið tekin um hver kostanna verði fyrir valinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×