Innlent

Steinn frá Höfn á leiði Viggu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Vigga tilbúin til brottfarar á hlaðinu í Suður-Vík
Vigga tilbúin til brottfarar á hlaðinu í Suður-Vík Mynd/Jón Ólafsson
„Mér fannst eins og að steinninn biði þarna eftir okkur,“ segir listakonan Jóna Sigríður Jónsdóttir, sem hefur veg og vanda af fyrirhugaðri uppsetningu legsteins á leiði flökkukonunnar Vigdísar Ingvadóttur, Viggu gömlu.

Frásögn í Fréttablaðinu síðastliðið haust af ævihlaupi Viggu gömlu í Mýrdal sem flakkaði um frá barnsaldri og fram á elliár vakti mikla athygli. Vigga, sem var úr stórum systkinahópi en hraktist að heiman undan einelti, lést 92 ára gömul árið 1957. Hún er grafin í Skeiðflatarkirkjugarði. Leiðið er ómerkt en úr því ætla Jóna og fleiri sveitungar hennar að bæta.

Í kjölfar frétta Fréttablaðsins af málinu höfðu margar steinsmiðjur samband við Jónu og buðu legsteina endurgjaldslaust. Jóna segir rétta steininn hafa fundist hjá S. Helgasyni. „Það er mjög fallegur náttúrusteinn austan úr Skaftafellssýslu, frá Höfn í Hornafirði. Það var eins og hann biði eftir að fara á leiðið hennar Viggu,“ lýsir hún.

Nú liggur fyrir hjá Jónu að hanna steininn. „Ég þarf að ræða við steinsmið um möguleikana. Mér finnst steinninn kalla á svolitla vinnu. Mig langar að hafa hann í stíl við gömlu konuna, eins og hún var,“ segir Jóna Sigríður Jónsdóttir. Áætlað er að steininum verði komið fyrir á sínum stað í vor eða sumar.




Tengdar fréttir

Vigga gamla finnur loks hjartahlýjuna

„Þetta var það sem Vigga þráði og leitaði að; hjartahlýja og kærleikur frá sveitungum sínum – hún þurfti á því að halda,“ segir Jóna Sigríður Jónsdóttir, ein kvennanna sem safna fyrir legsteini á ómerkta gröf förukonunnar Vigdísar Ingvadóttur í Mýrdal.

Flökkukonan Vigdís fær legstein sextíu árum eftir andlátið

Vigdís Ingvadóttir sem mætti harðræði föður síns og var höfð útundan í stórum systkinahópi í Mýrdal áður en hún lagðist í flakk aðeins tíu ára gömul fær loks legstein á leiði sitt sextíu árum eftir að hún dó í hárri elli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×