Erlent

Geðshræring í vél Malaysia Airlines

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Tæknilegir örðugleikar í flugvél hins umdeilda flugfélags Malaysia Airlines urðu til þess að vélinni var nauðlent í gær. Að sögn farþega hafði vélin „nötrað“ og var stefnan því tekin á næstu auðu flugbraut, sem reyndist vera í miðri Ástralíu.

Vélin var á leið frá Sydney til Kúala Lúmpúr í gærkvöldi og var komin að strandborginni Broome þegar ákveðið var að snúa við og reyna að lenda á flugvellinum í Alice Springs.

Kort breska ríkisútvarpsins má sjá hér að neðan.

Vélin var á leið frá Sydney til Kúala Lúmpúr.BBC
Farþegar vélarinnar, sem voru um 220 talsins, segja í samtali við fjölmiðla að eftir um 4 klukkustunda flug hafi vélin farið að gefa frá sér mikil óhljóð og tekið að hristast óstjórnlega. „Einhverjir brustu í grát og aðrir tóku að biðja. Þetta var mjög ógnvekjandi,“ er haft eftir farþeganum Sanjeev Pandev.

Áhöfnin hafi reynt að gera sitt besta til að róa mannskapinn en að sögn Pandev var hún sjálf „taugaóstyrk og skelkuð.“

Flugmönnunum tókst að lenda vélinni án nokkurra vandkvæða í Alice Springs og reynt verður að flytja farþega á áfangastað í dag.

Malaysia Airlines sendi frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem sagði að tæknilegum örðuleikum væri um að kenna, án þess að útskýra það neitt nánar. Flugfélagið hefur ítrekað ratað í heimsfréttirnar á undanförnum árum, ekki síst vegna vélar félagsins sem hvarf sporlaust yfir Indlandshafi árið 2014. Sama ár var flugvél á vegum Malaysia Airlines grandað yfir Úkraínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×