Viðskipti innlent

Sumarbústaðir hækka í verði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sumarbústaðir njóta sem fyrr töluverðra vinsælda.
Sumarbústaðir njóta sem fyrr töluverðra vinsælda. Vísir/Pjetur
Verð á sumarbústöðum hefur hækkað í takt við aukna eftirspurn á eftirsóttum stöðum, til að mynda á Suðurlandi, Grímsnesi, á Þingvöllum og í Skorradal. Þannig hefur verðhækkunin á sumarbústöðum á Suðurlandi verið rúm 50% frá 2010 til 2017, þar af 16% milli 2016 og 2017. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans þar sem sumarbústaðamarkaðurinn er kannaður.

Sumarbústaðir á Íslandi voru rúmlega 13 þúsund í lok ársins 2016 og hafði fjölgað um 74% frá árinu 1997. Fjölgunin var mun meiri í upphafi tímabilsins en á seinustu árum. Þannig fjölgaði sumarhúsum um rúm 16% milli áranna 2000 og 2005, en um tæp 9% á árunum 2010-2016.

Rúmlega helmingur sumarhúsa á landinu var á Suðurlandi í árslok 2016 og um fjórðungur á Vesturlandi. Um þrír fjórðu hlutar allra sumarhúsa á landinu er því á þessum tveimur svæðum.

Fram kemur í Hagsjánni að heilt yfir hafi sala sumarhúsa aukist nokkuð jafnt og þétt allt frá árinu 2008 - „en það ár fækkaði viðskiptum verulega.“

Nokkur velveltuaukning hefur orðið á markaði með sumarhús, einkum ódýrari sumarhús, síðustu ár. Fyrir hrun var töluverð velta á markaði með dýrari sumarhús en eftirspurn eftir slíkum eignum hefur verið minni en var þá ef marka má Hagsjána.

Sé meðalfermetraverð á öllum svæðum á landinu borið saman má sjá að það var hæst á Suðurlandi og að það var töluvert lægra á Vesturlandi og Norðurlandi. Verð á öðrum svæðum var töluvert lægra.

Hagsjána í heild má nálgast með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×