Fótbolti

Íslenska karlalandsliðið spilar á heimavelli San Francisco 49ers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Levi's Stadium.
Levi's Stadium. Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Íslands hefur nú staðfest að íslenska karlalandsliðið munu mæta Mexíkó í vináttulandsleik 23. mars næstkomandi. Fjórum dögum síðar mætir íslenska liðið síðan landsliði Perú.

Báðir leikir fara fram í Bandaríkjunum en á sitthvorri ströndinni. Leikurinn á móti Mexíkó fer fram á Levi´s leikvanginum í San Francisco, heimavelli ruðningsliðsins San Francisco 49ers.

Ísland mætir síðan Perú á Red Bull Arena í Harrison í New Jersey 27. mars en það er heimavöllur MLS-fótboltaliðsins New York Red Bulls.

Íslensku strákarnir fljúga því strandanna á milli í Bandaríkjunum í lok mars.

Levi´s leikvangurinn var tekinn í notkun sumarið 2014 en hann tekur tæplega sjötíu þúsund manns í sæti.

Ísland og Mexíkó hafa þrisvar mæst áður í vináttulandsleikjum og í öll skiptin einmitt í Bandaríkjunum.  

Fyrst mættust liðin árið 2003 í Phoenix (0-0), næst 2010 í Charlotte (0-0) og loks í Las Vegas í fyrra, þar sem Mexíkó vann 1-0 sigur, fyrir framan mesta áhorfendafjölda sem sótt hefur knattspyrnuleik í Las Vegas.  

Mexíkó er í 17. sæti á nýutgefnum styrkleikalista FIFA, en Ísland er í 20. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×