Erlent

Sluppu naumlega undan hraðbát á fullri ferð

Kjartan Kjartansson skrifar
Einn veiðimannanna birti myndband af atvikinu á vefsíðu sinni, Angling Oregon.
Einn veiðimannanna birti myndband af atvikinu á vefsíðu sinni, Angling Oregon. Skjáskot/Youtube
Betur fór en á horfðist þegar hraðbátur skall á bát þriggja veiðimanna á fullri ferð í Oregon í Bandaríkjunum. Veiðimennirnir náðu að stökkva frá borði á síðustu stundu eftir að tilraunir þeirra til að ná athygli stjórnanda hraðbátsins báru engan árangur.

Atvikið átti sér stað í Columbia-ánni síðasta sumar en myndband úr GoPro-myndavél af því hefur nýlega verið birt. Þá hefur einn veiðimannanna stefnt stjórnanda hraðbátsins. Allir veiðimennirnir þrír slösuðust.

Stjórnandi hraðbátsins heitir Marlin Lee Larsen og er 75 ára gamall. Staðarblaðið The Oregonian segir að tengdasonur mannsins hafi varað hann við því að tala í farsíma þegar hann stýrði hraðbátnum, þar á meðal daginn sem áreksturinn átti sér stað.  Larsen segir það „falsfréttir“ að hann hafi verið í símanum þegar hann sigldi á bát veiðimannanna.

Einn þeirra hefur þó stefnt honum til hundruð þúsunda dollara skaðabóta og sakar hann um að hafa ekki verið með athyglina við stýrið, að sögn Washington Post. Larsen ber því við að hann hafi setið við stýrið og það hafi byrgt honum sýn. Hann notast við rafskutlu til að fara ferða sinna á landi.

Larsen hefur verið ákærður fyrir afbrot, þar á meðal vítavert gáleysi við stjórn hraðbátsins, líkamsárás og fyrir að stefna lífi fólks í hættu með háskalegu athæfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×