Erlent

Keyptu réttinn að Fire and Fury

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bókin Fire and Fury hefur selst gríðarvel og selst upp. Endevour Content hefur keypt réttinn að henni.
Bókin Fire and Fury hefur selst gríðarvel og selst upp. Endevour Content hefur keypt réttinn að henni. Vísir/AFP
Framleiðslufyrirtækið Endeavor Content hefur fest kaup á réttinum að Eldi og bræði eða „Fire and Fury“ með það fyrir augum að laga metsölubókina að annað hvort sjónvarpsþáttaröð eða kvikmynd í fullri lengd. Engin sjónvarpsstöð hefur enn verið orðuð við verkefnið að því er fram kemur á vef New York Times.

Blaðamaðurinn Michael Wolff er höfundur bókarinnar en Eldur og bræði byggir á um tvö hundruð viðtölum og fjallar um fyrsta ár Donalds Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Sjálfur hefur Trump brugðist ókvæða við efni bókarinnar og gengið svo langt að reyna að stöðva útgáfu hennar en án árangurs.

Bókin vakti strax heimsathygli og rataði inn á metsölulistana. Sú umfjöllun Wolff sem olli miklu fjaðrafoki varðaði fund tengdasonar Trumps, Jareds Kushner, við hóp Rússa sem fór fram í hinum svokallaða „Trump-turni“ í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.  

Þá kemur einnig fram í bókinni að forsetinn hafi ekki notið eigin innsetningarathafnar sem fór einmitt fram á þessum degi í fyrra. Hann hafi reiðst þeim stórstjörnum sem ákváðu að sniðganga athöfnina.

Talið er að Wolff verði framleiðandi verkefnisins og er óhætt að fullyrða að aðlögunin muni líkt og bókin sjálf, vekja heimsathygli. 

Hér  er hægt að lesa um tíu helstu hneykslismálin sem eru í bókinni.


Tengdar fréttir

Bannon segir umdeildan fund Trump yngri vera landráð

"Þremur æðstu mönnum framboðsins fannst það góð hugmynd að funda með fulltrúum erlendrar ríkisstjórnar í Trump-turni, í fundarherberginu á 25 hæð og án þess að vera með lögmenn viðstadda.“

Tíu bombur úr nýrri bók um Trump

Ný bók blaðamannsins Michael Wolff um það sem gengur á innan veggja Hvíta hússins inniheldur fjöldann allan af afjhúpunum um forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×