Innlent

Svifryk í höfuðborginni: Skyggni mældist um 700 metrar

Atli Ísleifsson skrifar
„Þetta er með því mesta sem maður hefur séð held ég,“ segir veðurfræðingur um magn svifryks í höfuðborginni á miðnætti.
„Þetta er með því mesta sem maður hefur séð held ég,“ segir veðurfræðingur um magn svifryks í höfuðborginni á miðnætti. Vísir/vilhelm
Skyggni á höfuðborgarsvæðinu var einungis um 700 metrar á miðnætti. Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á vakt, segir þetta árlegt, sérstaklega í svona stilltu veðri. „Það var logn hérna í gærkvöldi þannig að það vantaði allan vind til að hreinsa þetta í burtu.“

Svifryk mældist vel yfir heilsuverndarmörkum á höfuðborgarsvæðinu í kringum miðnætti. Samkvæmt mælum Umhverfisstofnunar var ástandið verst í Kópavogi þar sem magnið fór upp í rúmlega 4.500 míkrógrömm á hvern rúmmetra (µg/​m3), en heilsufarsmörk eru metin 50 µg/​m3. Í Húsdýragarðinum í Laugardal fór magnið í mest í 1.700 µg/​m3, í 2.500 µg/​m3 á Grensásvegi.

„Þetta er með því mesta sem maður hefur séð held ég,“ segir hann um svifryksmagnið á höfuðborgarsvæðinu. „Sem betur fer er ekki alltaf svona stillt um áramótin. En það hreyfði varla vind í nótt.“

Haraldur segir að við athugun frá miðnætti og til rúmlega eitt hafi skyggnið verið undir kílómetri. Það hafi svo verið þrír kílómetrar klukkan tvö. „Það er þetta árvissa bomberí um áramótin, brennurnar og flugeldarnir.“

Haraldur segir spána ágæta fyrir daginn í dag. Það er áfram þurrt og rólegur vindur hér suðvestanlands. Það éljar dálítið fyrir norðan og austan. Það verður kalt. Svo fer að blása meira á morgun,“ segir Haraldur.

Fyrirsögn hefur verið breytt.


Tengdar fréttir

Astmasjúkir vilja að blási vel um áramót

Á fyrstu klukkutímum ársins 2017 mældist svifryksmengun á Grensásvegi 29-falt yfir heilsuverndarmörkum. Mengunin var rúm 1.450 míkrógrömm á rúmmetra en heilsuverndarmörk eru 50 míkrógrömm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×