Erlent

Óslóar­búi stakk af frá reikningnum eftir leigu­bíla­ferð frá Kaup­manna­höfn

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðin var um 600 kílómetra löng.
Ferðin var um 600 kílómetra löng. Vísir/Getty
Ölvaður maður á fimmtugsaldri tók í gærkvöldi ákvörðun um að taka leigubíl frá Kaupmannahöfn í Danmörku og heim í Óslóar í Noregi. Þegar heim var komið í hverfinu Abildsø í Ósló flúði maðurinn úr leigubílnum án þess að borga reikninginn.

Ferðin var um 600 kílómetra löng – um Eyrarsundsbrúna og norður vesturströnd Svíþjóðar – og hljóðaði reikningurinn upp á 18 þúsund norskar krónur, eða um 230 þúsund íslenskar.

NRK segir frá því að danski leigubílstjórinn hafi skiljanlega verið allt annað en ánægður með viðskiptavininn og sett sig í samband við norsku lögregluna sem kom á vettvang. Leigubílstjórinn hafði séð manninn flýja inn í íbúð sína og segir lögreglumaðurinn Vidar Petersen að í ljós hafi komið að maðurinn hafi fundist sofandi í rúmi sínu.

„Leigubílstjórinn þurfti að hafa fyrir því að fá borgað en það leystist úr þessu að lokum,“ segir Petersen.

Óslóarlögreglan greindi svo frá því á Twitter-síðu sinni að raunum leigubílstjórans hafi ekki verið lokið þar sem leigubíllinn hafi orðið rafmagnslaus fyrir utan hús viðskiptavinarins.

google maps



Fleiri fréttir

Sjá meira


×