Erlent

Kim Jong-un segist ávallt vera með kjarnorkuhnappinn á skrifborðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Jong-un ávarpaði þjóð sína í gær.
Kim Jong-un ávarpaði þjóð sína í gær. Vísir/afp

Stjórnvöld í Norður-Kóreu vilja fjöldaframleiða kjarnorkuvopn og opna á viðræður við nágrannana í suðri. Þetta var á meðal þess sem fram kom fram í nýársávarpi Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

„Kjarnorkuvopn okkar geta náð Bandaríkjunum öllum og hnappurinn er ávallt á skrifborði mínu. Það er raunveruleikinn, ekki hótun,“ sagði leiðtoginn. BBC greinir frá þessu.

Kim Jong-un sagði enn fremur að úr því sem komið er geti Bandaríkin aldrei hafið stríð gegn Norður-Kóreu, nú þegar langdrægar eldflaugar Norður-Kóreu geti skotið á hvaða skotmörk sem er á meginlandi Bandaríkjanna.

Áfram verði unnið að fjöldaframleiðslu kjarnorkuvopna og langdrægum eldflaugum. „Þessi vopn verða einungis notuð ef öryggi okkar er ógnað,“ sagði Kim Jong-un í ávarpi sínu sem sýnt var í sjónvarpi.

Hann opnaði á viðræður við Suður-Kóreumenn og sagðist vilja bæta samskiptin milli ríkjanna og draga úr hernaðarlegri spennu. Þá talaði hann vel um Vetrarólympíuleikana sem hefjast í Suður-Kóreu í næsta mánuði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.