Viðskipti innlent

Met í heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Það munaði um gamlársdagsbaðið.
Það munaði um gamlársdagsbaðið. Vísir/Getty
Met var í heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu milli klukkan 16:30 og 17:30 á gamlársdag. Þessa klukkustund nam rennslið í hitaveitu Veitna um 16,4 milljónum lítra og var þar með met í klukkustundarrennsli á heitu vatni frá þrettándanum 2014 slegið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum. Líklegt er talið að margir hafi skellt sér í sturtu eða bað fyrir kvöldið á þessum tíma sem skýri þessa miklu notkun.

„Fyrra klukkustundarmet, frá því síðdegis 6. janúar 2014, var 16.087 rúmmetrar en á milli klukkan 16:30 og 17:30 á gamlársdag 2017 nam rennslið 16.384 rúmmetrum.

Mikil orka er í þessum tæplega sextán og hálfu milljón lítra af heitu vatni og sé aflið reiknað til kunnuglegri stærða svarar það til hátt í þúsund megavatta. Það er á við samanlagðar stærstu vatnsaflsvirkjanir landsins, Kárahnjúka- og Búrfellsvirkjanir.

Rúmlega helming heita vatnsins fá Veitur frá jarðgufuvirkjunum Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu – Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun – um 40% eru sótt í jarðhitasvæði í Mosfellsbæ og um tíundi partur í jarðhitasvæði innan höfuðborgarinnar, í Laugarnesi og Elliðaárdal,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×