Innlent

Flugeldaterta sprakk á jörðu niðri í Vesturbænum: „Það er í raun ótrúlegt að ekki fór verr“

Atli Ísleifsson skrifar
Árni var staddur í áramótaboði í vesturborginni þegar atvikið varð. Mildi þykir að ekki fór verr.
Árni var staddur í áramótaboði í vesturborginni þegar atvikið varð. Mildi þykir að ekki fór verr. Samsett mynd

„Þarna voru allir með öryggisgleraugu, hann kveikir rétt á tertunni, hallar sér ekki yfir og enginn annar er nálægur. Þarna er farið að öllum öryggisatriðum og viljum við meina að það hafi orðið til þess að enginn slasaðist,“ segir Árni Sigurðsson sem náði myndbandi af því þegar flugeldaterta sprakk ekki eins og skyldi heldur á jörðu niðri í gærkvöldi.

Úlpa mannsins var illa út leikin eftir sprenginguna. Árni Sigurðsson

Árni var staddur í áramótaboði í vesturborginni þegar atvikið varð. „Það er í raun ótrúlegt að ekki fór verr. Þetta sýnir og sannar mikilvægi hlífargleraugna og að farið sé að öryggisreglum. Maður veit aldrei með þessa flugelda, svona hlutir geta gerst. Það er alveg hægt að ímynda sér hvað hefði gerst ef fleiri hefðu verið í kringum tertuna, til dæmis lítil börn. Þarna þurfti hann sem betur fer aðeins einn að koma sér í burtu.“

Árni segir að sá sem kveikti á tertunni virtist hafa sloppið að mestum hluta ómeiddur nema að ermin á úlpunni hans brann eins og sjá má á myndinni.

Árni segir að bíllinn sem hann fór sjálfur á bakvið þegar ósköpin dundu yfir hafi allur nötrað og titrað. „Maður fann höggin dynja,“ segir Árni. Hann segir að dóttir sín, Gunnlaug Eva, níu ára, og aðrir fjölskyldumeðlimir hafi grúfað sig niður að jörðinni til að forðast sprengingarnar.

Flugeldatertan sprakk ekki eins og skyldi heldur á jörðu niðri. Árni Sigurðsson

Sjá má myndbandið að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.