Innlent

Búist við stormi á Suður- og Suðausturlandi

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Spáð er hvassviðri á Suð- og Suðausturlandi á morgun. Myndin er úr safni.
Spáð er hvassviðri á Suð- og Suðausturlandi á morgun. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm
Búist er við stormi á Suður- og Suðausturlandi á morgun. Gul viðvörun er í gildi vegna óveðursins en samkvæmt vefsíðu Veðurstofu Íslands gætu vindhviður farið yfir 35 metra á sekúndu jafnt á Suðurlandi sem á Suðausturlandi.

Spáð er austan og norðaustan 20–25 metrum á sekúndu sunnan Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Skilyrði á svæðinu eru varasöm fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Þá er einnig spáð austan- og norðaustan 29–25 metrum á sekúndu við Öræfajökul og sunnan Mýrdalsjökuls.

Að sögn Haraldar Eiríkssonar veðurfræðings mun hvassviðrið líklega vera skollið á um hádegisbil. Telur hann tvímælalaust tilefni fyrir ökumenn til þess að sýna aðgát á svæðinu og fylgjast með tilkynningum frá Vegagerðinni.

Horfur annars staðar á landinu

Á höfuðborgarsvæðinu er útlit fyrir hæglátara veður. Í dag er spáð hægri norðlægri átt og björtu veðri og frosti allt að sex stigum. Skýjað verður á morgun, hiti nálægt frostmarki og austan 8–13.

Á Norðurlandi eystra er spáð dálítilli snjókomu og frosti allt að átta stigum en úrkomulítið á morgun. Á Austfjörðum er spáð smáéljum á morgun og hita um eða undir frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×