Veður

Búist við stormi á Suður- og Suðausturlandi

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Spáð er hvassviðri á Suð- og Suðausturlandi á morgun. Myndin er úr safni.
Spáð er hvassviðri á Suð- og Suðausturlandi á morgun. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Búist er við stormi á Suður- og Suðausturlandi á morgun. Gul viðvörun er í gildi vegna óveðursins en samkvæmt vefsíðu Veðurstofu Íslands gætu vindhviður farið yfir 35 metra á sekúndu jafnt á Suðurlandi sem á Suðausturlandi.

Spáð er austan og norðaustan 20–25 metrum á sekúndu sunnan Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Skilyrði á svæðinu eru varasöm fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Þá er einnig spáð austan- og norðaustan 29–25 metrum á sekúndu við Öræfajökul og sunnan Mýrdalsjökuls.

Að sögn Haraldar Eiríkssonar veðurfræðings mun hvassviðrið líklega vera skollið á um hádegisbil. Telur hann tvímælalaust tilefni fyrir ökumenn til þess að sýna aðgát á svæðinu og fylgjast með tilkynningum frá Vegagerðinni.

Horfur annars staðar á landinu
Á höfuðborgarsvæðinu er útlit fyrir hæglátara veður. Í dag er spáð hægri norðlægri átt og björtu veðri og frosti allt að sex stigum. Skýjað verður á morgun, hiti nálægt frostmarki og austan 8–13.

Á Norðurlandi eystra er spáð dálítilli snjókomu og frosti allt að átta stigum en úrkomulítið á morgun. Á Austfjörðum er spáð smáéljum á morgun og hita um eða undir frostmarki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.