Erlent

Fjölskylda mikilsvirts viðskiptamanns fórst í flugslysi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins við Hawkesbury-ána norðan við Sydney.
Frá vettvangi slyssins við Hawkesbury-ána norðan við Sydney. Vísir/EPA
Fimm manna fjölskylda Richards Cousins, framkvæmdastjóra eins stærsta veitingaþjónustufyrirtækis í heimi, fórst í flugslysi í grennd við áströlsku borgina Sydney á gamlársdag.

Cousins var 58 ára gamall. Í flugslysinu fórust einnig unnusta hans, ritstjórinn Emma Bowden, Heather, 11 ára gömul dóttir hennar, og tveir synir Cousins, Edward og William. Þeir voru 23 og 25 ára gamlir. Þá fórst flugmaður vélarinnar, hinn ástralski Gareth Morgan, einnig í slysinu.

Fjölskyldan, sem var búsett í suðvesturhluta Lundúna, var á leið til Sydney eftir málsverð á veitingastað utan við borgina. Tildrög slyssins eru enn óljós en flugvélin brotlenti í Hawkesbury-ánni um 50 kílómetra norðan við Sydney.

Cousins tók við stöðu framkvæmdastjóra breska fyrirtækisins Compass Group, sem sér meðal annars um veitingar fyrir viðburði og fyrirtæki, árið 2006 og hugðist fara á eftirlaun í september. Hann naut mikilla vinsælda í starfi og hefur mikil sorg gripið um sig meðal samstarfsfólks hans, að því er fram kemur í frétt BBC. Emma Bowden, unnusta hans, átti farsælan feril hjá tímaritinu OK! Magazine að baki.

William, eldri sonur Cousins, var fjölmiðlafulltrúi hreyfingarinnar Open Britain sem berst gegn snarpri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þá var Edward, sá yngri, nýútskrifaður úr hinum breska St Andrews-háskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×