Erlent

Tveir slasaðir eftir að flugeldasýning fór úrskeðis

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Pjetur
Tveir slösuðust og þúsundir þurftu að flýja er flugeldasýning í Ástralíu fór úrskeðis vegna bilunar í skotbúnaði. Áhorfendur voru staddir á Terrigal-ströndinni í New South Wales ríki í Ástralíu í gærkvöld.

Að sögn lögregluyfirvalda á svæðinu var skotstöðin staðsett á pramma laust undan ströndinni. Pramminn varð alelda og fyrir vikið kviknaði nánast í öllum flugeldum sýningarinnar samtímis.

Mikil sprenging varð og í kjölfarið runnu tvær grímur á marga áhorfendur. „Átti þetta að gerast?,“ hrópuðu skelkaðir sjónarvottar á meðan aðrir biðu ekki boðanna og forðuðu sér á stundinni.

Samkvæmt fréttaveitu BBC var ströndin rýmd en þúsundir áhorfenda voru þar saman komnir. Tveir menn slösuðust en þeir voru staddir á prammanum sem varð eldi að bráð. Meiðsl þeirra voru þó ekki alvarleg.

Nokkrir sjónarvottar náðu atvikinu á myndband en líkt og sjá má er sprengingin gríðarlega öflug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×