Erlent

Byrjar nýja árið á því að saka Pakistan um „lygar og svik“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/afp
Donald Trump Bandaríkjaforseti er harðorður í garð pakistanskra yfirvalda í tísti sem hann birti á Twitter-reikningi sínum í dag. Tístið var það fyrsta úr smiðju forsetans á nýju ári en hann segir heimskulegt að Bandaríkjamenn skuli hafa veitt 33 milljarða dala í þróunaraðstoð í Pakistan.

New York Times greindi frá því á föstudag að Trump íhugi nú alvarlega að skera niður þróunaraðstoð til Pakistan um 225 milljónir Bandaríkjadala eða rúma 23 milljarða íslenskra króna. Ástæðan að baki þeim vangaveltum er talin vangeta stjórnvalda í Islamabad, höfuðborg Pakistan, til að taka á hryðjuverkastarfsemi í landinu.

Trump gefur fréttaflutningi NYT byr undir báða vængi með tísti sínu í dag. Hann segir það heimskulegt að Bandaríkjamenn skuli hafa veitt umræddar fjárhæðir til þróunaraðstoðar í Pakistan og hafi ekkert fengið fyrir sinn snúð nema „lygar og svik“.

„Þeir skjóta skjólhúsi yfir hryðjuverkamennina sem við eltumst við í Afganistan, með lítilli aðstoð. Ekki meira!“ ritar Trump. Af þessu má því ráða að Pakistan fái ekki frekari aðstoð, eða að minnsta kosti verulega skerta, frá Bandaríkjunum.

Samskipti milli yfirvalda ríkjanna tveggja hafa verið stirð undanfarna mánuði. Í sumar kallaði Trump eftir því að stjórnvöld í Islamabad hættu öllum stuðningi við skæruliða sem leita skjóls við afgönsku landamærin. Yfirvöld í Pakistan hafa hafnað þessum ásökunum forsetans en fundað verður um málið í pakistanska þinginu á morgun, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins The Guardian.


Tengdar fréttir

Ætla að berjast til sigurs í Afganistan

Donald Trump ávarpaði samkomu í Fort Meyer-herstöðinni í Texas í gær og ræddi þar hernaðarstefnu ríkisstjórnarinnar í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×